146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:21]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Forseti. Þetta er merkileg umræða. Í næstsíðustu ræðu sá ég góða tillögu þar sem var eiginlega lagt til að slátra þessari mjólkurkú sem ferðaþjónustan er. Það er nefnilega þannig að ferðaþjónustan er í samkeppni við önnur lönd og þegar landslagið er skoðað í Evrópu er gistiþjónusta, gistináttaþjónusta, yfirleitt í öðru virðisaukaskattsþrepi en meginþrepi. Það er meginreglan.

Það virðist gleymast í þessu landi varðandi ferðaþjónustuna að hún skilar sennilega í virðisaukaskattstekjur u.þ.b. 30 milljörðum á ári þrátt fyrir uppbyggingarfasa. Í öðru lagi, eitt fyrirtæki, Icelandair, af starfsemi þess falla til 24 milljarðar í skatttekjur til ríkissjóðs. Sennilega er það svipuð tala hjá öðrum hluta ferðaþjónustunnar þannig að ferðaþjónustan skilar u.þ.b. 70–80 milljörðum í ríkissjóð. Það að gera þessa atvinnugrein að einhverri féþúfu kann að leiða til þess, eins og ég sagði áðan, að greininni verði slátrað.

Spurt var: Hvaða leiðir sér ráðherra til að dreifa ferðamönnum um landið? Ráðherrar dreifa ekkert ferðamönnum um landið. Ferðamenn ákveða sína áfangastaði sjálfir. Það er ósköp einfaldlega þannig að dreifing ferðamanna ræðst svolítið af fjarlægð frá flugvelli. Fjarlægðin frá flugvelli er Faxaflóasvæðið og við búum við það. Það er alveg út í bláinn að reikna með því að hér verði mikið um beint flug frá útlöndum til annarra áfangastaða. Keflavíkurflugvöllur er núna með 6,8 milljónir farþega og til að hafa aðra svona stóra gátt inn í landið þarf minnst 3–4 milljónir farþega (Forseti hringir.) vegna þess að uppbygging flugvalla byggist á flughafnarhugmynd þannig að því verður ekki breytt.

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa farið yfir mörkin.