146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég sagði í fyrri ræðu minni að í stöðunni eins og hún er og í rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar og í stöðu ríkissjóðs lægi beinast við að færa virðisaukaskatt af gistingu og afþreyingu í almennt þrep. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða og ef litið er til ástands innviða vegna álags og litið er styrkingar krónunnar sem verður til þess að ferðaþjónustan ryður öðrum útflutningsgreinum frá þá eru skattstyrkir til greinarinnar ekki skynsamlegir.

Mikill meiri hluti þeirra sem nýtir sér gistiþjónustu og afþreyingu fyrir ferðamenn hér á landi eru erlendir ferðamenn, Íslendingar eru þar í miklum minni hluta. Þær aðrar leiðir til gjaldtöku sem ræddar hafa verið lenda flestar jafnt á okkur Íslendingum sem á erlendum ferðamönnum og gefa ekki eins vel til ríkissjóðs. Komugjöld leggjast t.d. á alla þá sem koma til landsins, hvort sem það eru erlendir ferðamenn eða Íslendingar að koma heim úr fríi eða vinnuferðum frá útlöndum. Komugjöldin þyrftu að vera há, nokkur þúsund krónur á ferð, til að ná þeim tekjum sem breytingin á virðisaukaskattinum gæfi.

Mér finnst hins vegar að ef Alþingi vill gefa ferðaþjónustunni skattafslátt við þessar aðstæður, sem ég tel að yrði flokkað undir hagstjórnarmistök þegar sagan verður skoðuð síðar, sé næstbesti kosturinn komugjöld, þótt þau þurfi að vera há og greiðist líka af Íslendingum. Komugjöld sem færu í innviðauppbyggingu ásamt gistináttagjaldi sem rynni til sveitarfélaganna gætu saman gert gagn. Alla vega er algjörlega kristaltært að það verður að grípa um stjórnartaumana og stýra stöðunni frá ógöngum. Það fer illa ef ekkert verður að gert og það mun enginn greiða fyrir það nema íslenskur almenningur með ærnum tilkostnaði og niðurskurði á velferðarþjónustu.(Forseti hringir.) Þess vegna verðum við að taka okkur taki og þótt fyrr hefði verið. Því miður er ekkert að sjá í stefnuyfirlýsingu (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórnar um að taka eigi á málinu. Það eina sem þar er nefnt eru bílastæðagjöld. (Forseti hringir.) Bílastæðagjöld munu ekki mæta þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.