146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

staðan í ferðamálum - leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.

[12:34]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég gæti örugglega staðið hér í allan dag og rætt þessi mál við þingmenn. Ég ætla að reyna að nýta tímann vel og fara yfir það helsta.

Ég tek undir áherslur hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur á landvörslu. Það er verkefni sem heyrir auðvitað undir umhverfisráðuneytið en kemur aftur og aftur upp á borð mitt sem leið til þess að ná utan um fjölmörg verkefni sem snúa að náttúrunni.

Samráð við heimamenn snýr að miklu leyti að því að vinna með markaðsstofunum. Ég átti sjálf gott samtal við þær í gær einmitt um þetta verkefni og mikilvægi samráðs við heimamenn.

Hér er fjallað um að ekkert sé gert og að hér ríki nýfrjálshyggja. Það eru auðvitað tekin gjöld í dag. Það felst ekki mikil nýfrjálshyggja í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Úr honum er úthlutað til einstaklinga, sveitarfélaga og ríkisins, sem er þó regluverk sem ég er að endurskoða.

Við erum líka með í rauninni miðstýrða landsáætlun. Í henni birtist forgangurinn við innviðauppbygginguna. Hún heyrir líka undir umhverfisráðuneytið og hana þarf að fjármagna. Þar birtist skýr heildarmynd og heildarsýn. Það er því ekki rétt að ekkert hafi verið gert en ég geri ekki lítið úr þeim verkefnum sem áfram þarf að vinna.

Stjórnstöðin er síðan að leggja lokahönd á forgangsröðun verkefna. Þar kemur stóra salernismálið inn í. Það var ekki vilji til að fara í bráðabirgðaaðgerð svolítið fyrir mína tíð. Mér finnst hins vegar koma til skoðunar bara að gera það, því að jafnvel þótt við þurfum síðan að fara í almennilega uppbyggingu getum við ekki verið að fjalla um salernismál í mjög langan tíma.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fer mjög fljótlega að úthluta 600 millj. kr. þannig að það er auðvitað mikil uppbygging að eiga sér stað, svo það sé sagt. Ég er staðráðin í að vanda mig í þessum málaflokki og ætla ekki að ana að neinum grundvallarbreytingum að illa ígrunduðu máli. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir gagnrýni um að þetta hafi tekið tíma tel ég óhætt að segja að ég í það minnsta reyni að vinna hratt og (Forseti hringir.) það er líka mikilvægt að þessi umræða eigi sér stað hérna á þinginu.

Eins og ég segi, (Forseti hringir.) það verður bara einhver annar að óska eftir annarri sérstakri umræðu svo ég geti haldið áfram að tala, ég ætla ekki að fara of mikið fram yfir.