146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

jafnréttisákvæði í frumvarpi um dómstóla.

[14:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Fyrr í dag var afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd fyrsta mál sem nefndin afgreiðir síðan ný ríkisstjórn tók við, frumvarp um dómstóla þar sem gengið er frá því hvernig dómarar við Landsrétt eru skipaðir. Þar náðist ekki sátt um það að setja setninguna „Skal ráðherra þar sérstaklega hafa í huga jafnréttislög“ í lagatexta.

Við í minni hlutanum teljum fulla þörf á þessu, sérstaklega í ljósi þess að dómsmálaráðherra telur enga þörf til að grípa með einhverjum sértækum aðgerðum inn í ferli við skipun dómara. Af þessum sökum bókuðum við í minni hlutanum, sá sem hér stendur ásamt fulltrúum Pírata og áheyrnarfulltrúa Samfylkingarinnar, þar sem við hörmuðum að sú samstaða sem ríkti á síðasta kjörtímabili um málið skuli nú vera rofin vegna þess að meiri hlutinn geti ekki sætt sig við orðalag í þágu kynjajafnréttis í lagatexta, orðin: „Skal ráðherra sérstaklega hafa í huga (Forseti hringir.) jafnréttislög.“ Hversu hættulegt væri það?