146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

jafnréttisákvæði í frumvarpi um dómstóla.

[14:08]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Vegna umræðunnar um störf allsherjar- og menntamálanefndar langar mig að taka skýrt fram að valnefndin er í fyrsta skipti skipuð að meiri hluta konum. Það eru þrjár konur sem munu koma að vali á hæfustu einstaklingunum í Landsrétt og ráðherra er, burt séð frá því hvort við höfum samþykkt þessa viðbót minni hlutans í lögin, skylt að fara eftir lögum um jafna stöðu kvenna og karla þegar hann velur eftir að nefndin hefur nefnt í hvaða hæfnisröð einstaklingarnir eru.

Við erum að ræða hérna lagfæringar lagabreytingartillögu. Það er búið að stofna Landsrétt, þetta var lagfærð lagabreytingartillaga og í áliti nefndarinnar er skýr hvatning til ráðherra um að kynjahlutföllin verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara.