146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

jafnréttisákvæði í frumvarpi um dómstóla.

[14:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Enn aukast vonbrigðin. Það eru vonbrigði að sjá að ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar telji nóg að hafa hér almenna hvatningu um að fylgja eftir lögum í stað þess að setja inn lagaákvæði um að jafnréttissjónarmiðum skuli fylgt í hvívetna. Við vitum öll sem hér erum að jafnréttislögin eru sjálf ekki einu sinni nógu sterk, þannig að ef eitthvað væri til þess að styrkja nýtt dómstig bæri nýjum dómsmálaráðherra að hafa þessi lög þarna inni og sýna það í verki, og flokkurinn sem er í forsvari fyrir ríkisstjórnina, sýna svart á hvítu að kynjasjónarmiðin munu vera tekin alvarlega. Það er kannski tímabært fyrir forsætisráðherra sem var tilnefndur einn af tíu þjóðarleiðtogum að sýna í verki að (Forseti hringir.) kynjasjónarmið séu höfð í hávegum undir hans stjórn.