146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:20]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum sem fjalla um sölu áfengis með það að markmiði að ríkið hætti smásölu áfengis, að smásalan verði gefin frjáls að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og að lýðheilsustarf verði aukið með því að efla forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði.

Flutningsmenn eru níu talsins og koma úr röðum fjögurra þingflokka. Meginatriði frumvarpsins eru þau að ríkið hætti afskiptum af smásölu áfengis og sá hluti af starfsemi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem snýr að áfengisverslun verði lagður niður. Tóbaksverslun ríkisins starfi eftir sem áður í óbreyttri mynd og samhliða verði einokun með smásölu áfengis hætt og hún gefin frjáls með ákveðnum skilyrðum, eins og ég sagði hér áðan. Skilyrðin eru þau að smásöluaðili verður að fá leyfi sveitarstjórnar til sölu áfengis, afgreiðslutími skal vera takmarkaður og áfengi skal geymt í sér rými aðgreint innan hverrar verslunar ásamt því að uppfylla þarf önnur skilyrði eins og um öryggisbúnað og þess háttar.

Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að reglur um auglýsingar áfengis verði færðar í skynsamlegra og nútímalegra horf þannig að heimilt verði að auglýsa áfengi í innlendum fjölmiðlum með þeim takmörkunum að þeim skuli fylgja aðvörunarorð um skaðsemi áfengis og hvatningu til ábyrgrar neyslu sem og að aldrei megi beina áfengisauglýsingum að börnum og ungmennum.

Þá er í frumvarpinu sérstök áhersla á eflingu lýðheilsusjóðs og lögð til sú breyting að í stað þess að 1% af áfengisgjaldi renni í sjóðinn verði hlutfallið hækkað í 5%. Með því móti er verið að stórauka framlög til forvarna, fræðslu og meðferðarúrræða til að sporna í mun meira mæli en nú er gert gegn skaðlegri, óhóflegri áfengisdrykkju.

Frú forseti. Ég mun fjalla alveg sérstaklega um lýðheilsumál í tengslum við þetta frumvarp síðar í ræðu minni, enda liggur fyrir að efasemdir um ágæti þessa frumvarps snúa flestar að lýðheilsusjónarmiðunum. En áður en lengra er haldið er rétt að fjalla aðeins sérstaklega um það sem ekki breytist með þessu frumvarpi, verði það að lögum.

Áfengiskaupaaldur mun áfram miðast við 20 ára aldur. Í lögum verði því áfram um að ræða algjöra aðgangshindrun að áfengi fyrir þá sem eru yngri en 20 ára. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir viðurlögum við því ef smásöluaðili afgreiðir áfengi til þeirra sem ekki hafa til þess aldur. Þá sæta þeir viðurlögum. Í dag er ekki að sjá að ÁTVR sæti neinum sérstökum viðurlögum fyrir brot á þessari reglu.

Í annan stað, frú forseti, verður áfengisgjald og álagning þess enn fremur óbreytt. Frumvarpið mun því hafa lítil sem engin áhrif á tekjur ríkisins af áfengissölu, enda áfengisgjöld mjög há og geta numið allt að 80–90% af útsöluverði sumra tegunda í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Enda er almennt viðurkennt að verð á áfengi hefur marktækari áhrif á neysluhegðun en þær kannanir sem mæla óljós áhrif aðgangshindrana með fjölda útsölustaða á neysluhegðun.

Í þriðja lagi verður afgreiðslutími áfengis áfram takmarkaður í lögum. Í 3. gr. reglugerðar nr. 177/1999, um smásölu áfengis, segir að afgreiðslutími smásölu áfengis geti ekki verið lengri en frá átta að morgni til 23 að kvöldi þó svo að ÁTVR kjósi af einhverjum ástæðum að hafa afgreiðslutíma styttri. En í frumvarpinu er gert ráð fyrir sömu lengd á afgreiðslutíma en með þeirri breytingu að tíminn muni miðast við níu að morgni til miðnættis.

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir framlagningu þessa frumvarps nú og rökin fyrir því að samþykkja það eru fjölmörg, eins og lesa má um í samantekt í greinargerð sem fylgir frumvarpinu. Ég ætla að reifa hér nokkur atriði.

Fyrirkomulag á einokunarverslun ríkisins hefur í grundvallaratriðum verið óbreytt í nær 95 ár, eða síðan sterkt áfengi var aftur gert að löglegri neysluvöru árið 1922. Eina stóra og markverða breytingin sem innleidd hefur verið í lög öll þessi ár er lögleiðing bjórsins 1. mars 1989. Varla þarf að fjölyrða um þær miklu og hröðu samfélagsbreytingar sem íslenskt þjóðlíf hefur gengið í gegnum síðastliðna áratugi. Þegar sameinaðri verslun áfengis og tóbaks var komið á fót árið 1961 var hér á landi til að mynda einungis ein ríkisrekin útvarpsstöð. Ríkið hafði tögl og hagldir á flestum sviðum atvinnulífsins og var æðifyrirferðarmikið í allri verslun og þjónustu, samhliða því að skammta gjaldeyri til almennings. Fólk fór þá að jafnaði ekki mikið til útlanda og hingað komu fáir. Íslenskt samfélag var með öðrum orðum fámennt, fábrotið og einangrað á þessum tíma.

Sem betur fer er öldin önnur í dag á svo mörgum sviðum. Viðskiptafrelsi hefur stóraukist og átt verulegan þátt í því að Ísland skipar sér nú sess með hinum ríkustu þjóðum í heimi. Samfélagið er fjölbreytt, opið, frjálslynt. Íslendingar fara um allan heim í leit að menntun, atvinnu, afþreyingu, og hingað koma gestir frá öllum heimshornum, annaðhvort til að setjast að til lengri tíma eða til að heimsækja land og þjóð. Menning okkar og viðhorf hefur eðlilega gjörbreyst til svo margra hluta m.a. í gegnum alþjóðasamstarf og samvinnu, í gegnum endalaust upplýsingaflæði internetsins, sem og í gegnum innlenda og alþjóðlega miðla. Nú til dags sjást fáir í Leifsstöð taka með sér dósir af ORA grænum baunum á leið í fríið. Það telst jafnvel samfélagslega viðurkennt að neyta erlendra osta og kjöts hér á landi. Það sama á auðvitað við um vínið.

Vín er í dag ekki lengur fordæmt sem bara brennivín og böl, heldur órjúfanlegur hluti gróskumikillar matarmenningar, jafnvel menning og fræði í sjálfu sér. Innlend framleiðsla áfengis er þess fyrir utan að festa sig í sessi og orðin iðnaður sem er nátengdur landkynningu og þjónustu við sívaxandi fjölda ferðamanna. Þá hefur aðgengi að áfengi á undanförnum árum og áratugum stóraukist. Það er staðreynd. Vínbúðum ríkisins hefur fjölgað. Þær eru nú 50 talsins. Opnunartími þeirra hefur verið rýmkaður. Úrvalið hefur aukist. Netverslun á vegum vínbúðanna hefur jafnvel verið komið á fót. Vínveitingaleyfum um land allt hefur jafnframt stórfjölgað um mörg hundruð prósent á síðastliðnum 20 árum, þau eru nú í dag allt að því að verða þúsund, enda eru skemmtistaðir og veitingahús til að mynda í höfuðborginni aðeins fleiri en fimm eða sex eins og voru hér á árum áður. En eftir situr úr sér gengið og úrelt einokunarfyrirkomulag ríkisins í smásölu með þessa löglegu neysluvöru sem skerðir athafnafrelsi borgaranna og hamlar að sjálfsögðu samkeppni. Það er augljóst. Það er fyrirkomulag sem engum dettur í hug að eigi að gilda um aðrar sérstakar löglegar vörur eins og lyf, skotfæri eða tóbak. Það er fyrirkomulag sem hefur nær ekkert með lýðheilsu að gera.

Óhófleg neysla áfengis er skaðleg, um það er ekki deilt, ekki verður deilt við mig um það. Hún er skaðleg þeim einstaklingi sem haldinn er slíkri vímuefnafíkn. Hún er böl fyrir fjölskyldu hans og vandamenn. Samfélagið verður jafnframt fyrir ýmsum kostnaði vegna óhóflegrar og jafnvel ólögmætrar neyslu áfengis. Það getur verið vegna líkamstjóns eða dauða í umferðinni, kostnaðar í heilbrigðiskerfinu, tapaðra vinnustunda eða aukinna þarfa fyrir félagslega aðstoð. Um það er ekki deilt.

Það sem deilt er um er hvort það frumvarp sem hér liggur fyrir leiði til aukins aðgengis að áfengi, hvort aukið aðgengi að áfengi leiði sjálfkrafa til aukinnar áfengisneyslu og hvort aukin áfengisneysla leiði sjálfkrafa til aukningar óhóflegrar neyslu áfengis. Við deilum hér ekki um hina sérstöku eiginleika áfengis. Umræðan snýst heldur ekki um hvort áfengi eigi að vera bannað eða löglegt. Það væri reyndar skiljanlegt og hreinskiptið af andstæðingum frumvarpsins hvar sem þeir eru, ég geri reyndar ráð fyrir að þeir séu jafnvel einhverjir í þessum sal, að leggja einfaldlega til að banna áfengi. Það væri þá hreinskiptið, sérstaklega ef tekið er mið af þeim rökum sem nú er teflt fram gegn frjálsri sölu og smásölu áfengis. (RBB: Þetta er nú svo málefnalegt.)(Gripið fram í: Þetta er mjög málefnalegt.) (Gripið fram í.)

Við flutningsmenn þessa frumvarps teljum að besta og árangursríkasta leiðin til að sporna gegn óhóflegri neyslu áfengis séu forvarnir. Það er besta leiðin. Forvarnir í stað forræðishyggju. Forvarnir, fræðsla og alvörumeðferðarúrræði fyrir þá sem hjálpar eru þurfi. Það eru þær leiðir sem virka.

Með forvörnum og fræðslu má sem dæmi ná árangri til að upplýsa ungmenni um skynsemi þess að neyta ekki áfengis á viðkvæmu aldursþroskatímabili. Einstakur árangur hefur náðst á síðastliðnum 20 árum einmitt með forvörnum og fræðslu í skólum landsins í samstarfi við foreldra og tómstundahreyfingar í því skyni að draga úr drykkju ungmenna. Það hefur gerst á sama tíma og aðgengi að áfengi og áfengisneysla hefur aukist í samfélaginu öllu. Það eru staðreyndir sem mikilvægt er að setja í rétt samhengi.

Meðferðarúrræði, ráðgjöf og aðstoð fyrir þá sem orðið hafa áfengisfíkninni að bráð gera svo augljóslega langtum meira fyrir vellíðan þeirra einstaklinga og lýðheilsu en það að banna áfengisfíklinum að versla áfengi á sunnudögum. Þess vegna er lagt til í þessu frumvarpi að stórauka framlög í lýðheilsusjóð til þess að halda megi áfram á braut forvarna og meðferðarúrræða af auknum krafti. Með því er horfst í augu við vandann og lagt til að við beitum þeim úrræðum sem virka best í stað þess að stinga hausnum í sandinn í von um að vandamálið hverfi.

Ég ætla að leyfa mér að spá fyrir um að því verði haldið fram í þessari umræðu að frumvarpið, verði það að lögum, auki aðgengi að áfengi. Við því er það að segja að líklega er það alveg hárrétt. Líklega. Það er samt ekki hægt að segja til um það með neinni vissu. Frekar ætti að segja að aðgengi að áfengi verði væntanlega í takt við vilja fólks varðandi hvar og hvernig sé best að kaupa áfengi. Þá ber líka að athuga að aðgengi að áfengi getur verið með ýmsum hætti og er ekki eingöngu bundið við fjölda útsölustaða Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Verð, eins og ég nefndi áðan, er eitt form aðgengis. Reyndar hefur verð tvöfalt meiri áhrif á aðgengi en fjöldi útsölustaða. Það má líka sjá samhengi á milli aukningar kaupmáttar almennings og hagvaxtar og aukningar áfengisneyslu.

Annað sem vert er að hyggja að og snýr að aðgengi eru undirheimar. Takmörkun aðgengis að áfengi með hefðbundnum hætti ýtir undir aukningu á svokölluðu skuggaaðgengi, t.d. bruggi, smygli og jafnvel eftirspurn í önnur ólögmæt vímuefni. Þá breytu vantar eðli máls samkvæmt nær alltaf í allar rannsóknir eða samantektir um áhrif aðgengis á áfengisneyslu, enda hvar á smyglarinn að skila inn gögnum til þess að nýtast í slíkar rannsóknir?

Aldurstakmark er svo eitt form aðgengis, eða öllu heldur aðgangshindrun, en í þessu frumvarpi verður áfram gert ráð fyrir að aðgengi ungmenna yngri en 20 ára verði ekkert.

Afgreiðslutími og aðgreining með búð í búð-fyrirkomulagi eru jafnframt þættir sem hafa áhrif á aðgengi. Í frumvarpinu er áfram gert ráð fyrir takmörkun á afgreiðslutíma og að áfengi verði ávallt aðgreint í sérrými innan hverrar verslunar. Ef um er að ræða sérverslun er verslunin sjálf nægjanlega aðgreind.

Eftir stendur þá að hugsanlega kann útsölustöðum með áfengi að fjölga verði frumvarpið að lögum þó svo að þeir verði líklega ekki jafn margir og þeir staðir sem nú þegar hafa vínveitingaleyfi.

Þá skulum við velta fyrir okkur: Hvernig á að mæla aukningu í aðgengi út frá fjölgun útsölustaða? Ég spyr: Jókst aðgengi um 4% á síðustu tveimur árum með opnun tveggja nýrra vínbúða þar sem þeim fjölgaði úr 48 í 50, ein er á Kópaskeri, önnur í Grafarvogi? Var það þannig mælanleg aukning að aðgengi fyrir landsmenn? Er það meðaltal vegalengdar landsmanna allra í næstu áfengisbúð sem skiptir hér máli? Er það tölfræðilegt miðgildi sem sker úr um aðgengið? Íbúi á Eiðistorgi skokkar 100 metra í næstu vínbúð. Íbúi á Þingeyri þarf að keyra 50 kílómetra í næstu vínbúð. Er þá hæfileg fjarlægð í vínbúð fyrir landsmenn að meðaltali 25 kílómetrar og 50 metrar? Eykst áfengisneysla íbúans á Eiðistorgi við það að íbúi á Þingeyri þurfi einungis framvegis að fara 100 metra til að kaupa áfengi (Gripið fram í: Voðalega …) ef frumvarpið verður að lögum? (Gripið fram í.) Þetta eru álitamál, frú forseti.

En veltum fyrir okkur af hverju einstaklingur sem verslar í Kringlunni og röltir svo 30 metra undir sama þaki þeirrar verslunarmiðstöðvar og kaupir þar vín, ætti að kaupa meira vín við það eitt að geta náð í áfengi í aðgreindu rými í þeirri verslun sem hann keypti matinn? Veltum því fyrir okkur.

Virðulegur forseti. Á grundvelli erlendrar samantektar á árinu 2011 munu heyrast hér fullyrðingar þess efnis að við afnám einokunarsölu áfengis muni áfengisneysla aukast um alla vega 40%. (LE: Það er nú nýtt að flytja ræðurnar fyrir hina líka.) — Þakka fyrir, ég er að reyna að flýta fyrir málinu, þú skilur. Látum vera að sú fullyrðing er ekki á neinn hátt í tengslum við íslenskar aðstæður, samfélagsgerð, löggjöf, eða fyrirhugaðar breytingar samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Látum það liggja milli hluta. Látum líka liggja á milli hluta að svona framsetningu með tölfræði má heimfæra þannig að sá sem drekkur eina rauðvínsflösku á mánuði drekki þá framvegis tæplega eina og hálfa á mánuði, látum það liggja líka á milli hluta. Ræðum heldur hversu áreiðanlegar slíkar tölfræðilegar samantektir eru í raun og veru.

Þegar farið er í gegnum þessar samantektir hverja fyrir sig er niðurstaðan sú að fullyrðingar um allt að 40% aukningu eru hlutdræg túlkun á niðurstöðunni. (RBB: Líka hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni?) sem byggja á veikum grunni og eru uppfullar af alls konar fyrirvörum (RBB: Líka hjá landlækni?) um hvað kunni mögulega að gerast að gefnum ákveðnum forsendum og skilgreindu mengi. Þetta er nefnilega í fæstum tilvikum vísindalega sannaðar kenningar, byggðar á empírískum rannsóknaraðferðum yfir lengri tíma þar sem margs konar breytur í mannlegu samfélagi eru útilokaðar með vísindalegum hætti. Í rauninni er það eina sem hægt er að fá út úr þessu öllu saman er að rannsóknir, samantektir, skýrslur um þessi mál stangast á að mörgu leyti í þessu máli.

Þegar áreiðanleiki svona fullyrðinga er skoðaður mætti allt eins spyrja á móti: Hversu mikið áfengi drekka 2 milljónir ferðamanna á Íslandi og hvernig eru þær tölur dregnar frá gögnum um heildaráfengisneyslu á Íslandi? Er látið duga sem fullnægjandi aðferðafræði fyrir vísindalega rannsókn að taka 50 ferðamanna úrtak og spyrja menn hvað þeir hafi drukkið mikið á landinu?

Virðulegur forseti. Vel unnin tölfræði er gagnleg og rannsóknarniðurstöður eru mikilvægt hjálpartæki við úrlausn á ýmsum flóknum verkefnum. En það er líka oft varasamt að fella alla mannlega hegðun undir einfalda tölfræðilega samantekt og draga víðtækar ályktanir út frá einfaldri samlagningu og deilingu.

Tökum sem dæmi eftirfarandi fullyrðingu, svona til að létta aðeins lundina: Að meðaltali hefur homo sapiens eitt eista. Að meðaltali hefur mannkynið eitt eista. Það er auðvitað rétt tölfræði ef bæði kynin eru sett í mengið og stuðst við einfalda deilingu en það hefur augljóslega enga þýðingu og er fullkomlega marklaust.

Þegar upp er staðið munu tölfræðilegar bollaleggingar og karp um gildi slíkra upplýsinga ekki ráða úrslitum í þessu máli heldur hvað þingheimur telur rétt að gera í ljósi þeirra breytinga sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum á liðnum áratugum frá því að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins var komið á fót. Þá mun koma í ljós hvort hv. þingmenn hafa í raun sannfæringu fyrir því hvort hægt eða rétt er að reyna að stýra hátterni fulltíða einstaklinga með ýmsum boðum og bönnum.

Öllum breytingum fylgir óvissa. Þeim sem tala fyrir breytingum í takt við breytta samfélagsgerð eða framþróun er oftar en ekki mætt með úrtöluröddum um að allt fari á versta veg ef breytingin nær í gegn. Þannig var það þegar frelsi í útvarpssendingum var leitt í lög og þegar banni við sölu bjórsins var aflétt fyrir tæpum 30 árum síðan, þá vantaði ekki fordæmingar og varnaðarorð ýmissa sérfræðinga og þingmanna um að æska þessa lands mundi glatast og að allt mundi fara á versta veg. Raunin varð hins vegar allt önnur. Á bak við þá lagasetningu var sú trú öllu öðru yfirsterkari að um væri að ræða skynsamlega og eðlilega breytingu í takt við tíðarandann og engin haldbær rök eru lengur fyrir þeirri forræðishyggju að reyna að stýra neyslu fólks frá öli yfir í sterkt brennivín.

Virðulegur forseti. Í öllum meginatriðum er nákvæmlega sama spurning uppi í þessu máli. Ég vænti þess að málefnaleg og uppbyggileg umræða verði um málið hér í þingsal og í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar.

Hv. þingmenn geta vissulega haft skiptar skoðanir á mikilvægi eða ágæti þessa máls, en látum þá endilega atkvæðagreiðslu hvers þingmanns fyrir sig eftir þrjár umræður hér í þinginu og meðferð í þingnefnd skera nákvæmlega úr um það.