146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni varð tíðrætt um rannsóknir. Ég vil vitna í nýlega sænska rannsókn. Þar var rannsakað hvaða áhrif það hefði að leyfa sölu áfengis í matvörubúðum. Ölvunarakstur myndi aukast, árásum, dauðsföllum og veikindadögum myndi fjölga. Ef tölurnar yrðu heimfærðar yfir á Ísland myndi tilfellum ölvunaraksturs fjölga um 230 á ári, árásum um 700 á ári og dauðsföllum vegna meiri áfengisnotkunar um 70 á ári. Veikindadögum myndi fjölga um 390.000.

Embætti landlæknis hefur birt samantekt um rannsóknarskýrslur um áfengismál og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér þær rannsóknir sem eru víðtækar og niðurstöðurnar eru samhljóma. Hefur hv. þingmaður kynnt sér þessar rannsóknir og gerði hann það ítarlega áður en hann samdi skýringarnar með frumvarpinu?