146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í hverri einustu rannsókn sem ég hef lesið, og þær eru nokkuð margar, segir að aukið aðgengi auki neyslu. Ég held að það sé samdóma niðurstaða. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra sett fram stefnu í ríkisfjármálum þar sem talað er um að það þurfi að fara varlega í skuldbindandi ákvarðanir varðandi ríkisfjármálin, en það er alveg ljóst að aukið aðgengi eykur neyslu. Ég held að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um það sem og að aukin áfengisneysla hafi kostnað í för með sér. Það kemur niður á samfélaginu, í heilbrigðiskerfinu, löggæslunni, dómskerfinu, tryggingakerfinu og atvinnulífinu.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi gert ráð fyrir því hvernig eigi að mæta þeim kostnaði sem frumvarpið (Forseti hringir.) hefur í för með sér, aukið aðgengi að áfengi og þar með talið aukin neysla sem hefur ótvíræð áhrif á heilsu og kostnað í samfélaginu.