146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:53]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að spara þakkir fyrir þetta svar því að það var ekkert.

Mikið vildi ég að hv. flutningsmaður hlustaði á mig því hann heyrði greinilega ekki í mér í fyrra skiptið. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta, orðrétt:

„Er það til þess að bregðast við þeim tímabundnu breytingum sem kunna að verða á áfengisneyslu eftir að smásala á áfengi verður gefin frjáls.“

Hvaða tímabundnu breytingar eru þetta á áfengisneyslu sem flutningsmaður spáir fyrir um að verði og meðflutningsmenn hans? Er hann að segja að tímabundið verði aukin áfengisneysla og við því verði að bregðast? Er hann þá ekki kominn í ansi mikla mótsögn við sjálfan sig þegar hann er að bera brigður á rannsóknir sem segja einmitt það sem hann sjálfur hefur sett niður á blað en virðist hafa gleymt, í það minnsta virðist hann (Forseti hringir.) vera laginn við að skjóta sér undan því að svara því: Hvaða breytingar eru það sem flutningsmaður boðar að verði?