146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:58]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef það um þetta að segja að áfengisauglýsingar eru staðreynd á Íslandi. Þær eru úti um allt. Þær eru á samfélagsmiðlum. Þær eru í sjónvarpi. Þær eru í útvarpi. Þær eru í blöðum. Erlendar auglýsingar í erlendum miðlum eru úti um allt og innan lands á innlendum miðlum eru margs konar áfengisauglýsingar, reyndar með smáu letri oft og tíðum um að um sé að ræða léttöl. Það velkist enginn í vafa um hvað er verið að gera. Þetta er staðreynd, frú forseti. Þær eru hér úti um allt.

Það sem áfengisauglýsingar gera fyrst og fremst er að færa neyslu milli tegunda, það er ekkert sem sýnir fram á að þær auki þá neyslu eða að algjört bann við áfengisauglýsingum dragi úr neyslu.