146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:59]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svar hv. þingmanns er að það séu auglýsingar úti um allt. Hann talaði líka um það í ræðu sinni áðan að í frumvarpi sínu yrði algjör aðgangshindrun að sölu á áfengi til ungmenna. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann hver eigi að sinna eftirlitinu með sölunni ef um þvílíka aðgangshindrun er að ræða í þessu frumvarpi eins og hann vill vera láta? Hver á að sinna því eftirliti? Það kemur hvorki fram í greinargerðinni né frumvarpstextanum.

Hann stendur í ræðustól Alþingis og fullyrðir að hér sé um að ræða frumvarp sem feli í sér algera aðgangshindrun. Ég vil gjarnan fá nánari útskýringar hjá hv. þingmanni á þessum orðum hans.