146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hef verið margspurð af fjölmiðlamönnum og fleirum á undanförnum árum, þ.e. í hvert skipti sem Sjálfstæðismenn leggja fram frumvarp um brennivín í búðir, hvort ég sé fylgjandi því að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum. Ég hef svarað því neitandi. Fyrir þeirri afstöðu eru eftirfarandi rök.

1. Áfengi er ekki eins og hver önnur matvara og þarf varla að rökstyðja það frekar. Skaðsemi áfengis er vel þekkt og bara vegna þess á aðeins að selja áfengi í sérverslunum.

2. Aukið aðgengi að áfengi eykur neyslu. Það hafa rannsóknir sýnt. Nú gætu þeir sem eru ósammála mér sagt að aukningin sé nú ekki svo mikil. Þá er því til að svara að hvert prósentustig sem bætist við í aukinni neyslu áfengis vegur enn þyngra og veldur enn meiri skaða en prósentustigið þar fyrir neðan. Þar geta t.d. legið mörkin á milli hóflegrar neyslu og of mikillar neyslu.

3. Aukin neysla áfengis veldur heilsuskaða. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin metur það svo að áfengisneysla sé meðal sterkustu áhættuþátta varðandi lýðheilsu. Kostnaður vegna neyslu áfengis kemur fram í samfélaginu, í heilbrigðiskerfinu, löggæslunni og dómskerfinu, í tryggingakerfinu og í atvinnulífinu. Ef þingmönnum er alvara með því að styðja frumvarpið þurfa þeir líka að segja hvaðan á að taka peningana til að mæta þeim kostnaði.

4. Aukin neysla eykur vanlíðan afkomenda og aðstandenda þess sem neytir áfengis í óhófi. Ef stjórnvöld taka ákvarðanir sem leiða til aukinnar neyslu áfengis mun vanlíðan t.d. barna og ungmenna þessa lands aukast. Það er meðal þeirra aukaverkana sem frumvarpið hefur í för með sér, verði það að lögum.

5. Ef áfengi er í sérverslunum er það sérstök ákvörðun að ganga inn í áfengisverslunina og kaupa áfengi en ekki hugdetta um leið og gengið er fram hjá áfengisskotinu í matvörubúðinni.

6. Forvarnastarf Íslendinga í áfengismálum hefur vakið alþjóðlega athygli. Það starf byggir m.a. á því hvernig við höfum takmarkað aðgang og þannig vil ég hafa það áfram hér á landi.

Ég hef líka spurt að því hvers vegna það sé eitt af forgangsmálum Sjálfstæðismanna að koma brennivíni inn í matvörubúðir, af hverju það sé mál sem sé tekið fram fyrir önnur þingmál flokksins. Hver er hin mikla þörf fyrir að gera það sem frumvarpið boðar? Hvers vegna er þetta forgangsmál Sjálfstæðismanna?

Síðast þegar við vorum að ræða þetta mál var það einnig sett í forgang hjá Sjálfstæðismönnum. Þá var talað um að það væri sérstakt frelsismál. Það eru að vísu smá aukaverkanir fyrir samfélagið og kostnaður, en það varðar forgang og frelsi í augum Sjálfstæðismanna.

Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur skrifaði góða grein sem birtist í Fréttablaðinu síðast þegar slíkt frumvarp var lagt fram. Þar segir hann m.a., og ég geri hans orð að mínum, með leyfi forseta:

„Áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Að neyta áfengis er ekki það sama og neyta gosdrykkjar eða mjólkur. Áfengi er vímugjafi og á að mínu mati ekkert erindi inn í stórmarkaði, heldur ætti vegna eðlis og skaðsemi þess að hindra sem mest aðgengi að áfengi. Helstu þættir áfengisvarnastefnu opinberra aðila eru og hafa verið öflugar forvarnir, hár áfengiskaupaaldur, háir áfengisskattar og takmarkað aðgengi að áfengi. Áfengisforvarnir hafa í gegnum tíðina verið mjög öflugar, bæði af hálfu opinberra aðila og félagasamtaka eins og SÁÁ, íþróttahreyfingarinnar og góðtemplarareglunnar. Áfengiskaupaaldur hefur verið hærri á Íslandi miðað við önnur lönd sem við berum okkur saman við. Það eru helst Svíþjóð og Finnland sem hafa sömu aldurstakmörk og Ísland. Áfengissala hefur verið undir stjórn ríkisins síðan áfengisbannið var afnumið að hluta árið 1922. Í dag rekur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 48 vínbúðir um allt land, sem tryggir nægilegt aðgengi að áfengi.“

Þegar Gunnar Alexander Ólafsson skrifaði þessa grein í Fréttablaðið voru þær 48, eins og fram hefur komið hjá framsögumanni málsins.

Ef einni stoð af þeim fjórum sem áfengisstefna stjórnvalda byggist á yrði breytt mun afleiðingin verða meiri áfengisneysla. Sú aukning mun leiða til fleiri félagslegra vandamála, meiri ölvunaraksturs, fleiri heimilisofbeldismála, fleiri skilnaða, fleiri áfengistengdra dauðsfalla, fleiri tapaðra vinnustunda vegna áfengisneyslu og stofnanir samfélagsins munu þurfa að eyða meiri tilkostnaði í að glíma við afleiðingarnar.

Í andsvari við hv. þingmann, flutningsmann frumvarpsins, vitnaði ég í nýlega sænska rannsókn þar sem niðurstöðum hafði verið snúið yfir á íslenskar aðstæður. Það var ekki fagur veruleiki sem upp var dreginn. Er ástæða til að breyta um stefnu á Íslandi? Nei. Það er engin ástæða til þess.

Embætti landlæknis hefur birt samantekt um rannsóknarskýrslu um áfengismál. Rannsóknirnar eru víðtækar og niðurstöðurnar samhljóma. Ég nefni hérna nokkur dæmi.

Árið 2009 var gerð könnun á vímuefnaneyslu íslenskra unglinga í alþjóðlegum samanburði áranna 1995–2007. Niðurstaðan ef aðeins er horft á áfengishlutann er sú að íslensk ungmenni á aldrinum 15–16 ára neyta hvað minnst áfengis miðað við önnur ungmenni í Evrópu, bæði þegar horft er til heildarneyslu yfir eitt ár og neyslu síðustu 30 daga. Noregur, Svíþjóð og Finnland raða sér öll neðarlega á lista yfir lönd þar sem drykkja ungmenna er mikil. Í Danmörku er ungmennadrykkjan með því hæsta sem gerist í Evrópu, en þar er áfengi einmitt selt í matvöruverslunum.

Í evrópskri rannsókn frá árinu 2010 um samantekt á kostnaðarþáttum sem tengjast áfengisneyslu er niðurstaðan sú að kostnaðarliðir sem tengjast áfengisneyslu m.a. heilbrigðisþjónusta, félagsleg umönnun, afbrot, ölvunarakstur og vinnutap, hækka allir. Árið 2012 voru skoðuð áhrif einkavæðingar áfengissölu á óhóflega neyslu áfengis og skaða af völdum þess. Niðurstaðan er sú að sterkar vísbendingar eru til þess að áfengissala og óhófleg neysla áfengis aukist í kjölfar einkavæðingar og sölu áfengis.

Ríkisrekstur á sölu áfengis stuðlar að minni skaðsemi en ef salan er gefin frjáls. Stýring stjórnvalda á áfengissölu í verslunum er ein árangursríkasta leiðin til að minnka óhóflega neyslu og koma í veg fyrir dauðsföll og skaðsemi af völdum áfengis.

Árið 2010 var gerð rannsókn á mögulegum afleiðingum þess að leggja niður einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis í Svíþjóð og taka upp frjálsa verslun. Tvö tilfelli voru tekin fyrir, í fyrsta lagi að skipta út einkaleyfi ríkisins fyrir aðrar einkareknar verslanir með áfengissöluleyfi og í öðru lagi að leyfa áfengissölu í matvöruverslunum. Fyrra tilfellið er talið skila 17% aukningu á áfengisneyslu, sem mundi fjölga tilfellum dauðsfalla um 770, líkamsárásum um 8.500 og veikindadögum mundi fjölga um 4,5 milljón á ári. Seinna tilfellið er talið skila 37,4% aukningu í áfengisneyslu, sem mun fjölga tilfellum dauðsfalla um 2.000, líkamsárása um 20.000 og veikindadögum mundi fjölga um 11,1 milljón á ári.

Einnig má nefna rannsókn 2011 um aukna áfengisneyslu í kjölfar einkavæðingar. Það er samantekt á 17 rannsóknum. Niðurstaðan gaf til kynna að 44% aukning verði á sölu áfengis á mann við einkavæðingu.

Sænsk rannsókn frá árinu 2013 með yfirskriftina „Áfengi og samfélagið, áhersla á ungmenni“. Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir vísbendingar um að áfengisdrykkja ungmenna í Svíþjóð hafi dregist saman á síðustu árum sé hlutfallið enn þá hátt sem og skaðsemin af völdum þess. Vísbendingar eru um að áfengisdauði, umferðarslys af völdum áfengis og ofbeldi hafa farið vaxandi og mikilvægt að viðhalda einkaleyfi ríkisins á áfengissölu, ströngum lögum varðandi ölvunarakstur og háum skatti á áfengi.

Áfengisneysla í OECD-ríkjunum hefur verið rannsökuð. Ein slík rannsókn er frá árinu 2013. Þar er niðurstaðan að Ísland, Noregur og Svíþjóð skipa sér í hóp þeirra Evrópulanda í OECD sem drekka minnst af áfengi, eða í kringum 7 lítra á einstakling árið 2010, en meðaltal OECD-landanna er á milli 9–10 lítrar á einstakling.

Ein af þeim rannsóknum sem hægt er að skoða á vef embættis landlæknis er bandarísk rannsókn frá árinu 2013 um tengsl áfengisdrykkju og hagvaxtar í Bandaríkjunum. Niðurstaðan er sú að aukning áfengisneyslu er tengd við minni hagvöxt og minnkun áfengisneyslu er tengd við aukinn hagvöxt. Hækkun á áfengisskatti eykur hagvöxt. Mér finnast þetta vera merkilegar niðurstöður í ljósi þess sem hv. þingmaður ræddi í framsögu sinni einmitt um þetta efni.

Svo virðist vera að þeir sem tala hæst um aðhald í ríkisrekstri og mikilvægi aukins hagvaxtar vilji líka endilega áfengi í matvörubúðir þó að allar virtar rannsóknir sýni að það hefur aukinn kostnað ríkisins í för með sér og minni hagvöxt. Mér finnast það skringilegar mótsagnir í málflutningi.

Endurreisn heilbrigðiskerfisins er forgangsmál, ekki aukið aðgengi að áfengi sem auka mun kostnað við heilbrigðiskerfið sem við höfum verið í basli með að fjármagna. Í umræðum um þetta mál, sem Sjálfstæðismenn telja sérstakt forgangs- og frelsismál, hvarflar hugurinn til þeirra þúsunda Íslendinga sem skrifuðu undir áskorun til okkar hér, löggjafarvaldsins og fjárveitingavaldsins, að leggja meira til heilbrigðiskerfisins til þess að bregðast við þeim vanda sem þar ríkir. Það er afar slæmt ástand í sumum sviðum í heilbrigðiskerfi okkar sem er fólkinu í landinu hjartans mál. Við þurfum að leggja enn meira í það á næstu árum og gera enn betur til að bregðast við ástandinu eins og það er í dag.

Með því frumvarpi sem við ræðum hér, þessu mikla forgangsmáli Sjálfstæðismanna, er verið að leggja til aukið aðgengi, mun meira aðgengi að áfengi sem allar rannsóknir sýna að muni aðeins leiða til aukinnar neyslu. Aukin neysla þýðir aukið álag á heilbrigðiskerfið, ekki bara á heilbrigðiskerfið heldur einnig á löggæsluna. Þetta er undarleg hugsun, frú forseti. Ég lít þannig á að með þessu frumvarpi sé beinlínis farið gegn vilja fólksins í landinu. Það hefur enginn kallað eftir því nema flutningsmennirnir sjálfir og einstaka forsvarsmenn stórra verslana. En það mun hafa alvarleg áhrif ef það verður samþykkt.

Frú forseti. Frumvarpið hefur ekki verið metið út frá hag barna. Við hér höfum þó undirgengist það að gera það einmitt með því að skrifa undir barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það mun einnig hafa áhrif á kynbundið ofbeldi. Ég vil líka nefna rannsóknir þar sem fjallað er um hvernig draga megi úr lífsstílssjúkdómum, þar á meðal að lækka tíðni krabbameina. Eitt af því er að hefta aðgengi að áfengi vegna þess að áfengi veldur krabbameini ef neyslan er of mikil, alveg frá koki niður í endaþarm. Allar rannsóknir segja að það sem helst hefur áhrif á neyslu áfengis sé aðgengi og hvað það kostar.

Frú forseti. Þetta frumvarp er arfavitlaust. Það kemur inn á tíma sem dregur svo skýrt fram að það á ekki rétt á sér núna. Núna eigum við að vera að einbeita okkur að mikilvægari málum eins og endurreisa heilbrigðiskerfið, byggja hér upp innviði, löggæsluna, björgunarsveitirnar í landinu, menntakerfið, almannatryggingar, svo nokkur mikilvæg mál séu nefnd. Við megum ekki samþykkja frumvarp sem mun auka samfélagslegan kostnað og hefur svo stórkostlegar neikvæðar aukaverkanir þar sem við þyrftum að eyða orku og fjármunum og glíma við líðan fólksins í landinu.