146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki með þau viðmið á takteinum. Hins vegar hafa flutningsmenn þessa frumvarps áttað sig á því að það muni hafa einhver áhrif að setja áfengi í matvörubúðir og taka einkaleyfið úr höndum ríkisins og vilja því efla forvarnir. Mér finnst það þó virðingarvert í öllu málinu að menn átta sig á því að þarna er eitthvað á ferðinni sem þarf að bregðast við. Þau telja að það að setja meiri pening í forvarnir muni vera nægilegt til þess að bæta tjónið. Ég er ósammála því. Ég held að það muni ekki bæta tjónið. En það er þó alla vega viðleitni hjá flutningsmönnum vegna þess að auðvitað átta þau sig á skaðsemi málsins.