146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:50]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég gæti vel séð fyrir mér frumvarp í þá veru sem felur í sér afnám einkaréttar eða einkaleyfis ríkisins til að selja áfengi, sem ég gæti stutt ef hægt væri að sannfæra mig um að í því fælist ekki aukið aðgengi. Það er auðvelt að sjá fyrir sér stöðuna þar sem þetta myndi örugglega ekki hafa nein áhrif varðandi aðgengið. Það væri einfalda lausnin, að það væri ekkert annað en bara einkaleyfið sem væri afnumið og verslanir ríkisins væru seldar en aðrar takmarkanir héldu sér allar. Það skiptir engu máli upp á neysluna hvort ríkið reki verslanir eða einkaaðilar. Það væri alveg hægt að sjá það fyrir sér.

Eins og ég sagði áðan, ég skal ekki fullyrða að þetta aukist nákvæmlega línulega, þ.e. þessi drykkja. En hún eykst mest, og fyrir því eru allar þessar vísindarannsóknir, í þeim hópum sem eru viðkvæmastir fyrir, þ.e. hjá alkóhólistunum og hjá ungu fólki. Það er það sem ég tel varasamt. Það er eiginlega þess vegna, af því að skaðsemin er svo í beinu framhaldi af aukinni neyslu þessara viðkvæmustu hópa.

Já, ég get alveg séð fyrir mér frumvarp, sem ég gæti stutt, sem fæli í sér afnám á einkarétti ríkisins.