146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:51]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin og vona að hv. þingmaður muni geta átt gott samstarf við stuðningsmenn sem og andstæðinga þessa frumvarps á þingi um að ræða útfærslurnar og mögulegar breytingar á því.

Ég held reyndar að það að afnema einkaleyfi ríkisins muni alltaf hafa í för með sér að fleiri aðilar muni kjósa að selja áfengi á þeim grundvelli til dæmis að fleiri matvöruverslanir er í landinu en vínbúðir. Hitt er svo sem lengri umræða sem ég hef áhuga á sem félagsvísindamaður, þ.e. um beint aðgengi. Ég hef skoðað þær rannsóknir sem hv. þm. Oddný Harðardóttir vitnaði til áðan um áhrif aukinnar áfengisneyslu. En ég hef ekki séð þær rannsóknir sem benda mjög til að unglingadrykkja og þess háttar hafi aukist. Íslenskar aðstæður eru dæmi um hið gagnstæða þar sem áfengisneysla jókst mjög verulega síðan bjórbannið var afnumið á sama tíma og unglingadrykkja hefur dregist mjög saman. Það er ekki augljóslega einhlítt samband þó að (Forseti hringir.) eflaust séu til einhverjar rannsóknir sem benda til annars eins og hv. þingmaður vitnaði til.