146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:56]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Forseti. Nú hef ég svo sem ekki séð neinar kannanir sem beinast sérstaklega að áfengi í þessa veru eða hvað þetta varðar. Það vita svo sem allir að áhrif auglýsinga af þessu tagi eru tvíþætt. Það er alveg rétt að þetta er keppni tegundanna. Þetta færir neyslu á milli tegunda eftir því hve menn eru hugvitssamir að koma sinni vöru á framfæri. Það er heldur enginn vafi á því að aukinn sýnileiki eykur líka neysluna. Ég er hins vegar alveg sammála flutningsmanni frumvarpsins um að það er ákveðin þversögn í því að í öllum erlendum miðlum sem fólk hefur aðgang að hér, hvort sem er á netinu, prentmiðlum eða hverju sem er, eru áfengisauglýsingar. Það eru svo sem engir tæknilegir möguleikar á að stemma stigu við auglýsingum í útlendum miðlum.

Það er mjög auðvelt að benda á það, eins og flutningsmaður og fleiri hafa gert, að þetta brýtur með einhverjum hætti á jafnræði þeirra sem selja eða framleiða áfengi hér á Íslandi. En fyrir mér eru aðrir hagsmunir í þessu máli veigameiri og vigta þyngra en jafnræði seljenda. Auglýsingar auka sýnileika. Aukinn sýnileiki leiðir af sér aukna neyslu.