146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:01]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil sömuleiðis óska hv. þm. Páli Magnússyni fyrir jómfrúrræðuna og verð náttúrlega að nota tækifærið og fara í eitt stutt andsvar.

Það var ánægjulegt að hlusta á ræðu hv. þingmanns. Hann er vel upplýstur og hefur augljóslega kynnt sér rannsóknir og umsagnir um málið á fyrra þingi mjög vel. Það gefur mér von um að Sjálfstæðismenn séu margir hverjir betur upplýstir en maður hélt þegar umræðan hófst og að þeir eru ekki einhuga í málinu. Mér finnst það mjög mikilvægt.

Ég get að sumu leyti tekið undir orð þingmannsins að það er kannski ekki nauðsynlegt að einokun ríkisins á sölu áfengis haldi áfram. Við þurfum að skoða það mál sérstaklega. En það er ekki framfaraspor að auka sýnileika og aðgengi að áfengi. Það var augljóst og auðheyrt á hv. þingmanni að við erum sammála um það.

Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann: Telur hann ástæðu til að breyta núverandi kerfi? Hvern telur hann þá vera tilgang framlagðs frumvarps? Telur hann að það væri til bóta að einhverju leyti? Er eitthvað í því sem hann telur að yrði mögulega til bóta fyrir samfélagið? Við hv. þingmaður vorum saman í kjördæmaviku á Suðurlandinu í síðustu viku. Þar kom fram á fundum að þeir sem búa í dreifðari byggðum hafa áhyggjur af því að vöruúrval muni minnka hjá þeim, svo sem að þeir hafi minna úrval af áfengistegundum á sínu heimasvæði, og að verðið muni hækka. Þetta er því ekki bara spurning um hættur vegna aukins aðgengis og mögulega aukinnar neyslu, heldur líka mögulega aukið ójafnræði (Forseti hringir.) fyrir þá sem búa í hinum dreifðari byggðum, fyrir þá sem njóta þess að (Forseti hringir.) drekka áfengi og geta gert það í hófi og vilja fá áfengi á viðráðanlegu verði.