146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:03]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú að segja eins og er að út frá þeim lýðheilsumarkmiðum sem ég nefndi áðan hefði ég meiri áhyggjur af því að verðið mundi lækka en ekki hækka. Eins og komið hefur fram og kom fram hjá flutningsmanni tillögunnar og hefur reyndar komið fram áður, er verðið partur af aðgenginu. Þess vegna var það beinlínis hluti af röksemdafærslu flutningsmanns frumvarpsins að verðið ætti að halda sér, að verðið mundi ekki lækka. Ég vitna til könnunar sem gerð var í Bretlandi um aðgengi að víni þar, þar var það sem sagt opnunartími, sýnileiki og verð, þessir þrír þættir, sem ráða því hversu mikið aðgengið er.

Ég hef því meiri áhyggjur af öðru en því að við skerðum með þessu þjónustu við dreifðari byggðir landsins.