146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:04]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum áhyggjur af því að verð muni annaðhvort lækka með tilheyrandi aukinni neyslu, eða að það muni hækka á hinum dreifðari svæðum mögulega. Hvort tveggja er slæmt að mínu mati. Ég held að fyrirkomulagið sé ágætt eins og það er.

Ég var á fundi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í haust, ég held að hv. þingmaður hafi verið með mér þar, þar sem við hittum nemendur skólans og ræddum ýmis mál fyrir kosningar, m.a. áfengisfrumvarpið. Við vorum spurð að því hvaða skoðun við hefðum á því. Þar kom fram að mjög margir framhaldsskólanemar vinna með skóla í þeim matvöruverslunum sem munu mögulega fá leyfi til þess að selja áfengi. Þau höfðu miklar áhyggjur af möguleikum sínum til þess að fá vinnu með skóla ef þau mættu ekki lengur starfa við það sem þau starfa við í dag ef áfengi færi þar í sölu. (Forseti hringir.) Mig langar til að heyra skoðun hv. þingmanns á því.