146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:07]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við enn og aftur þetta blessaða og margumrædda áfengisfrumvarp. Eins og fram hefur komið í umræðunni er markmið frumvarpsins að einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis verði aflagt og smásala verði frjáls að ákveðnu marki. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lagaumhverfi áfengis- og tóbakssölu miðað við það markmið að smásala áfengis verði frjáls að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Flutningsmenn tillögunnar telja það ekki hlutverk ríkisins að sinna smásölu heldur sé það hlutverk ríkisins að setja reglur um hana og hafa eftirlit með henni ef nauðsyn þykir. Flutningsmenn tillögunnar telja það hlutverk einkaaðila að selja vörur og þjónustu í samræmi við þær reglur sem stjórnvöld hafa sett. Það sjónarmið á við um áfengi og aðrar neyslu- og nauðsynjavörur.

Eins og fram kemur í skýrslu Lýðheilsustöðvar er áfengi engin venjuleg neysluvara. Það er vegna þess að áfengi hefur bæði beina og óbeina eiturverkun á mörg líffæri og starfsemi líkamans. Meginskýringuna á samfélagslegu tjóni af áfengi má rekja til þessara eituráhrifa, þ.e. áfengisvímunnar, og tengsl milli áfengisvímu og skaða eru skýr og greinileg, sérstaklega hvað varðar ofbeldi, umferðarslys og önnur slys. Einnig kemur fram í skýrslu Lýðheilsustöðvar að markmið með stefnumótun í áfengismálum sé að treysta almenna lýðheilsu með því að hafa áhrif á neysluvenjur, neysluumhverfi og aðgengi að meðferð og þjónustu við áfengissjúklinga. Ýmis fyrirbæri og hugtök sem lúta að lýðheilsu gera yfirvöldum kleift að takast á við þann heilsuvanda sem fylgir neyslu og ofneyslu áfengis með því að auðvelda þeim að skipuleggja betri forvarnir og meðferðarúrræði.

Stefnumótun í áfengismálum hefur alltaf haft að leiðarljósi að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu á heilsu fólks og öryggi en aðeins nú í seinni tíð hefur stefnumótun verið byggð á vísindalegum staðreyndum. Í því frumvarpi sem við ræðum hér er lagt til að sala áfengis verði gerð frjáls og það get ég með engu móti samþykkt, sérstaklega ekki þegar við lítum til þeirra sjónarmiða sem m.a. eru sett fram í skýrslu Lýðheilsustöðvar og ég kom inn á áðan. ÁTVR hefur á undanförnum árum skilgreint samfélagslega ábyrgð sína með nokkuð ítarlegum hætti og kemur sú ábyrgð fram í eftirfarandi þáttum: Í fyrsta lagi sinnir ÁTVR hlutverki sínu af ábyrgð, t.d. eru engar söluhvetjandi aðgerðir leyfðar. Í öðru lagi: Strangt eftirlit er haft með aldri viðskiptavina og jafnframt tekur ÁTVR þátt í að byggja upp vínmenningu, t.d. með fræðslu til viðskiptavina. Auk þessa er samstarf við lögreglu og aðila sem vinna að forvörnum og sérstök áhersla er á að torvelda aðgengi unglinga að áfengi.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur jafnframt fram að rekstrartekjur ÁTVR á árinu 2016 verði 30.200 millj. kr., en það eru rúmlega 2% hærri tekjur en gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2015. Áætlað er að hagnaður á árinu 2016 verði rúmlega milljarður. Haldbært fé í árslok verði svipuð upphæð. Gert er ráð fyrir um milljarði, eða 1.000 millj. kr., í arðgreiðslum í ríkissjóð. Ekki er hægt að neita því að það er talsverður ávinningur fyrir ríkissjóð. En það kemur hins vegar fram í frumvarpinu að þann 31. desember 2015 námu eignir stofnunarinnar, þ.e. ÁTVR, tæpum 6 milljörðum, ef ég hef lesið þetta rétt, og óráðstafað fé rúmlega 4. En skammtímaskuldir námu 1.739 millj. kr. Ljóst má vera að umtalsvert fé er bundið í rekstri stofnunarinnar.

Í frumvarpinu kemur jafnframt fram, og það er jákvætt eins langt og það nær, að hækka á þann hluta af áfengisgjaldi sem mun renna í lýðheilsusjóð. Lagt er til að það hlutfall hækki úr 1% upp í 5%. Með því aukafjármagni verður lögð sérstök áhersla á forvarnaverkefni á sviði áfengismála, það verði nýtt til meðferðarúrræða fyrir þá sem mest þurfa á að halda þannig að forvarnir hafi forgang og einnig meðferðarúrræði og félagslegur stuðningur til barna og unglinga og einstaklinga og fjölskyldna þeirra sem eru í óhóflegri neyslu.

Í þessu sambandi er brýnt að litið sé til þeirra forvarnaaðgerða sem sannað hafa gildi sitt, kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Það sem mér finnst hins vegar neikvætt við það er að það er bundið við samþykkt þessa frumvarps. Benda má á að hægt er að gera breytingar og breyta lögunum án þess að tengja það þessu máli. Mig minnir að Steingrímur J. Sigfússon hafi lagt fram á fyrra þingi frumvarp sama efnis, um að hækka þessa prósentu til þess að auka forvarnastarf.

Ég ætlaði að leggja fram mál nú í upphafi þings um að hækka það hlutfall, en var þá bent á að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ætlaði sér að flytja málið að nýju. Og já, mér finnst það jafnframt of stuttur tími að hækkuninni sé eingöngu ætlað að vara í tvö ár og velti fyrir mér af hverju fjármagnið eigi ekki að renna þangað í lengri tíma.

Virðulegur forseti. Þar sem þetta frumvarp hefur komið nokkrum sinnum fram áður ætla ég að leyfa mér að vitna í fyrri umsagnir um málið og benda jafnframt á nýlegar ályktanir og áskoranir sem mikilvæg embætti hafa lagt fram. Ég ætla hér að byrja á að ræða orð landlæknis, en þau eru á þennan veg, með leyfi forseta:

„Það er í sjálfu sér sorglegt að [tillagan] skuli vera komin fram enn og aftur.“

Landlæknir segir eðlilegt að þeir sem vinni við að stuðla að bættri heilsu landsmanna leggist á móti þessu frumvarpi. Allar rannsóknir sem liggi fyrir bendi til að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu.

„Allar rannsóknir sem liggja fyrir benda til þess að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar notkunar,“ segir Birgir. „Þá erum við sérstaklega að tala um viðkvæma hópa líkt og ungt fólk og þá sem þola ekki áfengi og þar af leiðandi aukið tjón fyrir heilsu fólks og aukinn kostnað fyrir þjóðfélagið,“ segir hann. „Það er augljóst mál að þetta embætti sem á að stuðla að bættri heilsu landsmanna getur ekki annað gert en að leggjast á móti svona frumvarpi.“

Mig langar að velta því upp í ræðu minni hvort flutningsmenn tillögunnar séu ekki sammála landlækni og hafi engar áhyggjur af þeim aukna samfélagslega kostnaði sem er líklegur til að verða, verði frumvarpið að lögum. Eru þessir sömu þingmenn tilbúnir til að leggja verulega aukna fjármuni, mun meiri en fram koma í ríkisfjármálaáætlun, og bregðast við auknu álagi sem líklegt er samkvæmt orðum landlæknis og fleiri aðila að verði á velferðar- og heilbrigðiskerfið?

Einnig ályktuðu Barnaheill, UNICEF á Íslandi og umboðsmaður barna um málið og sendu frá sér sameiginlega áskorun vegna þessa sem við ræðum hér. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við hvetjum þingmenn til þess að kynna sér vel rannsóknir og afstöðu fagfólks á sviði heilbrigðis- og félagsmála til frumvarpsins. Þar kemur skýrt fram að afnám einkasölu ÁTVR og aukinn sýnileiki áfengis í auglýsingum, mun leiða til aukinnar áfengisneyslu, bæði meðal unglinga og fullorðinna. Er því ljóst að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu hafa verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir heilsu, þroska og öryggi barna.“

Þar segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem er hluti af íslenskum lögum, ber þingmönnum að setja hagsmuni barna í forgang þegar þeir taka ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti. Hagsmunir barna af því að njóta verndar gegn skaðlegum áhrifum áfengis eiga því að vega þyngra en önnur sjónarmið. Ef frumvarpið verður samþykkt brýtur það því gegn einni af grunnstoðum barnasáttmálans.“

Þar að auki brjóti frumvarpið gegn grunnstoðum barnasáttmálans.

Stjórn Krabbameinsfélagsins sendi jafnframt frá sér áskorun á dögunum. Með leyfi forseta ætla ég jafnframt að lesa upp þá áskorun. Þar segir:

„Með frumvarpinu er verið að leggja til að aðgengi að áfengi verði stóraukið með tilheyrandi fjölskylduvanda, samfélagslegum kostnaði, heilsufarsvanda og álagi á heilbrigðiskerfið. Aukin markaðssetning leiðir til þess sama. Fjöldi fagaðila á sviði heilbrigðis- og félagsvísinda auk félagasamtaka hefur fært góð og gagnreynd rök fyrir því að slíkt væri óheillaspor gagnvart lýðheilsu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur um áratugaskeið lagt til við aðildarþjóðir sínar að unnið verði markvisst að því að draga úr heildarneyslu áfengis. Það er fjarri lagi að hægt sé að taka ákvarðanir sem varða áfengi á þeirri forsendu að þar sé um að ræða venjulega neysluvöru.“

Þar segir jafnframt að vitað sé að áfengi auki líkur á krabbameini í munnholi, koki, barka, vélinda, lifur, ristli, endaþarmi og brjóstum.

„Einnig eru vísbendingar um að það auki líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli og fleiri tegundum krabbameins. Áætlað er að áfengi sé orsök um 4% dauðsfalla af völdum krabbameins eða um 25 manns á ári hér á landi.“

Því sé skylda Krabbameinsfélagsins að gera allt sem í þess valdi stendur til að draga úr neyslunni en ekki auka hana. Því hvetur stjórnin til að þingmenn felli frumvarpið.

Virðulegur forseti. Í ályktunum sem bárust til hv. allsherjar- og menntamálanefndar við vinnslu málsins þegar það var síðast til umræðu í þinginu skiptust umsagnir með málinu í tvo hópa. Það var alveg merkilegt, eða kannski alls ekki, kannski bara mjög fyrirsjáanlegt, að allir aðilar sem vinna í félagsvísindum og heilbrigðisvísindum vara við samþykkt frumvarpsins en margir eða flestir þeirra aðila sem reka eða standa fyrir verslun og þjónustu eru hlynntir samþykkt þess. Hvers vegna ætli það sé? Ég spyr: Hverra hagsmuna er verið að gæta?

Ég ætla að nýta ræðutíma minn í að rifja upp umsögn hv. velferðarnefndar um málið. Nefndin fékk málið til umsagnar þegar það var síðast til umræðu á Alþingi og örugglega í fyrri skiptin líka. Ég ætla ekki að lesa ályktunina í heild sinni þar sem hún er frekar löng og lítill tími er eftir. En ég ætla að taka nokkur atriði úr henni og reifa í lok ræðu minnar um málið. Með leyfi forseta segir m.a. í umsögn hv. velferðarnefndar frá fyrri framlagningu málsins:

„… áfengisneysla er þriðji stærsti áhrifavaldur fyrir heilsu mannkyns samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.“

Síðar segir:

„Áfengi veldur skorpulifur og ýmsum tegundum krabbameina í meltingarvegi frá munnholi niður í endaþarm. Þá eykur áfengisneysla tíðni brjóstakrabbameins hjá konum. Heilsufarsleg áhrif áfengis eru einnig víðtæk þegar litið er til andlegra og líkamlegra afleiðinga ofbeldis og slysa af völdum áfengisneyslu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sendi landlæknisembættinu bréf í tilefni af framlagningu frumvarpsins og hvatti til þess að Íslendingar héldu fast við stefnu sína um einokun ríkisins enda dregur slíkt úr neyslu. Bent er á að áfengisneysla á Íslandi sé minni en að meðaltali í Evrópu og að mikill árangur hafi náðst í að draga úr drykkju ungmenna.

Sænska lýðheilsustofnunin fól árið 2008 sænskum og alþjóðlegum sérfræðingum í áfengisrannsóknum að gera rannsókn á áhrifum þess fyrir sænskt samfélag ef ríkiseinokun á áfengissölu yrði afnumin og sala áfengis yrði leyfð í matvöruverslunum. Niðurstöðurnar voru sláandi. Áfengisneysla mundi aukast um 37,4% og leiða til hærri dánartíðni, aukins ofbeldis, fjölgunar þeirra sem aka undir áhrifum áfengis og gríðarlegrar fjölgunar veikindadaga. Rannsókn sem nemendur í Háskólanum á Bifröst unnu“ — sem sagt á svipuðum tíma og þegar málið var lagt fram — „sýndi að sömu áhrifa mundi gæta hér á landi. Þessar rannsóknir sýna að aukið aðgengi leiðir til aukinnar neyslu sem leiðir til fjölþættra samfélagslegra vandamála.

Rætt var um forvarnir sem mótvægisaðgerðir ef til þess kæmi að frumvarpið yrði að lögum. Bent var á að forvarnir fælust ekki aðeins í fræðslu heldur einnig t.d. stýringu á aðgengi og verðlagningu.“

Við umfjöllun hv. velferðarnefndar um áhrif frumvarpsins á velferð barna kom fram að aukið aðgengi mundi ógna þeim góða árangri sem náðst hefur við að draga úr áfengisneyslu ungmenna. Bent var á að í stað sérþjálfaðs starfsfólks mundi starfsfólk í matvöruverslunum afgreiða áfengi og miðuðust aldursmörk starfsfólks við 18 ár. Hætt er við að skapast kunni þrýstingur á svo ungt starfsfólk frá jafnöldrum að selja þeim áfengi. Einnig var bent á að SÁÁ telji að fjórða hvert barn eigi foreldri eða annan náinn aðstandanda sem er alkóhólisti. Það eru um 22.000 börn.

Samkvæmt umsögn SÁÁ myndi þeim börnum fjölga ef frumvarpið yrði að lögum.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að við margir hverjir hv. þingmenn erum ósammála um málið. Það er mjög mikilvægt að taka hér góða umræðu við 1. umr. því að það mun líklega hafa áhrif á þá vinnu sem mun eiga sér stað í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Hér erum við að leggja línurnar fyrir áframhaldandi vinnu málsins. Það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi þess.