146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:25]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir andsvarið, eða umræðuna eiginlega. Ég tek mjög mikið mark á þeim rannsóknum sem sýnt hafa fram á — þetta eru mjög virtir fagaðilar, bæði í félags- og heilbrigðisvísindum — tölfræðilegar upplýsingar um það hvernig aukið aðgengi að áfengi getur haft áhrif á heilsu, líf og þroska barna. Mér finnst full ástæða til að taka upplýsingar sem við fáum í þessum tölfræðirannsóknum alvarlega og hafa þær verulega í huga og hafa þær virkilega að sjónarmiði þegar við tökum efnislega umfjöllun og tökum svona stórar ákvarðanir eins og þessar eru.

Við getum nefnt að samtök eins og Barnaheill, UNICEF, stjórn Krabbameinsfélags Íslands og fleiri aðilar hafa verið að vitna í þessar rannsóknir. Þetta eru samtök, þessi og mörg önnur, sem hafa náð gríðarlega góðum árangri í störfum sínum. Einnig man ég frá fyrri framlagningu málsins að Heimili og skóli hafa bent á rannsóknir um áhrif þessa. Við getum nefnt þau góðu áhrif sem samstarf Heimilis og skóla hafa haft í forvarnastarfi. Í því samhengi tel ég mjög mikilvægt að horfa til þeirra rannsókna.

Þrátt fyrir að við séum oft að ræða um erlendar rannsóknir held ég að það sama eigi við um okkur. Þótt við séum lítil þjóð sem er eins og hverfi í stórborg úti í heimi erum við öll manneskjur með svipaða hegðun, þrátt fyrir mismunandi menningu og allt saman.