146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:29]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er afbragðsgóð hugmynd hjá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé. Við getum alveg komist að því samkomulagi að þetta verði samþykkt, óháð samþykkt frumvarpsins. Ég lagði það til og leitaði meðflutningsmanna að breytingu á þessum lögum um að hækka áfengisgjaldið úr 1% upp í 5% óháð þessu máli en komst þá að því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ætlaði sér að gera hið sama og ég held að við ættum bara að sammælast um það, við hv. þingmenn, að koma því máli í gegn óháð þessu; að það sé eitthvað sem er til framtíðar.

Þessi tvö ár: Ég skil ekki og hef ekki fengið svör við því af hverju þetta eru bara tvö ár og hvort það eigi að breyta einhverju í stóra samhenginu um neyslumynstur eða hvað það er. Ég tel mjög mikla þörf á því að hækka þetta hlutfall, auka við fjármagn í lýðheilsusjóð upp á forvarnir. Við sáum það t.d. í fréttaflutningi desembermánaðar að ölvunarakstur hefur mjög færst í vöxt og er núna svipaður og hann var 2007, sem voru gríðarlega háar tölur. Þetta er eitthvað sem við viljum beita okkur gegn. Þetta er hættulegt og slysatíðnin er veruleg. Það var einmitt talað um í þeim fréttaflutningi að til þess að sporna gegn þessum auknu áhrifum af ölvunarakstri þyrfti að auka fjármagn í fornvarnasjóð. Þá kviknaði hugmynd mín að því að hækka þetta gjald sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ætlar sér að leggja fram hér á Alþingi.