146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:34]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir. Og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, kærar þakkir fyrir andsvarið. Jú, það er rétt að við stöldruðum við sömu setningu í greinargerð frumvarpsins, um að flutningsmönnum tillögunnar finnist að ríkið eigi ekki að standa í þessum rekstri.

Það væri alla vega fróðlegt að sjá það sem hv. þingmaður bendir á með einkaaðilana, ef þetta yrði gefið frjálst og einkaaðilar sæju um söluna væri fróðlegt að sjá hvað myndi gerast. En það er rétt sem hann segir að það er svolítið kveinað þegar við veltum fyrir okkur hugmyndum eins og auknum álögum á ákveðna þætti í gegnum tekjubandorminn eða fjárlagavinnuna eða hvað það nú er. Ég verð að segja að fyrir mitt leyti finnst mér það hlutverk sem ÁTVR hefur í dag sannarlega virka mjög vel og þeir sinna hlutverki sínu af ábyrgð, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Þar stendur að ÁTVR sinni hlutverki sínu af ábyrgð, t.d. leyfa þeir ekki söluhvetjandi aðgerðir. Þeir eru með strangt eftirlit með aldri viðskiptavina og þeir hafa samstarf við lögreglu og aðila sem vinna að forvörnum og er sérstök áhersla hjá þeim á að torvelda aðgengi unglinga að áfengi. Ég man það líka frá því að ég vann verkefni um þetta efni í háskóla fyrir töluverðu síðan að Vínbúðin, eða ÁTVR, hefur hlotið verðlaun fyrir samfélagslega ábyrgð sína því að þeir hafa stuðlað verulega að forvörnum á sviði áfengisvarna. Það hlutverk sem ÁTVR hefur í dag er svo sannarlega gott.