146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur svarið og hlakka til samvinnunnar í framhaldinu því að ég reikna með að þetta mál muni lenda á borði nefnda okkar beggja, velferðarnefndar sem hv. þingmaður situr í og allsherjar- og menntamálanefndar sem ég á sjálfur sæti í.

Áfengisstefna ríkisins og hvernig henni er framfylgt er mjög flókið gangverk. Eins og málin standa einfaldar það kannski þá framkvæmd mjög mikið að smásalan er á höndum opinberra aðila. Ef einkaaðilar fengju smásöluna í sínar hendur værum við komin með þann veruleika sem hv. flutningsmaður nefndi í flutningsræðu sinni, að við þyrftum að gera út bjórlöggur í allar búðir til að sjá til þess að reglum væri framfylgt. Við þyrftum að auka eftirlit með skattskilum þeirra aðila sem mega selja þetta því fyrir mann sem ekki er vanur rekstri þá ímynda ég mér að það sé allt annað en auðvelt að halda utan um þau gjöld sem eru lögð á áfengið. Þá erum við aftur komin að því sem ég nefndi í fyrra andsvari, hvort þessi hefðbundni kór væri ekki líklegur til að koma ef það væru einkaaðilar en ekki opinberir sem þyrftu að standa í öllu því fargani, að standa skil á opinberum gjöldum af flókinni söluvöru. Væri þá ekki komin bæði skattlækkunarkórinn og bróðir hans, einföldunarkórinn, sem myndi vilja fletja út regluverkið í kringum álagningu á áfengi, lækka í leiðinni og þannig aftengja enn frekar þann stýringarmátt sem ríkið þó hefur á þessa vöru?