146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:38]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir síðara andsvarið. Ég verð að viðurkenna að ég datt aðeins út áðan því að mér var bent á atriði sem ég fór rangt með. Ég sagði að það sem ÁTVR gerði gengi vel, þetta hlutverk ÁTVR, ég talaði um að það kæmi fram í greinargerð með frumvarpinu. Það er rangt. Þarna er verið að vísa í lagatexta, er það ekki? Já.

Ég tel að það sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson bendir á sé mjög svo skoðunar virði. Við munum öll og vitum öll um þá kröfu sem er uppi um að einfalda ýmislegt regluverk og annað í þá veruna. Það er spurning hvort þeir bræður mæti upp á skattalækkanir og einföldun og syngi saman í kór og hvaða áhrif það myndi hafa. Ég tel að það gæti orðið mjög flókið fyrir rekstraraðila, sérstaklega minni rekstraraðila, kaupmanninn á horninu eða kaupmann vestur á fjörðum, að þurfa að halda utan um allt þetta, kaupmenn sem hafa kannski ekki mjög marga starfsmenn í vinnu. Þetta væri jafnvel íþyngjandi kostnaður fyrir þennan litla kaupmann sem er í baráttu við Haga og Kaupás á hverjum degi við að halda viðskiptavinum sínum hjá sér.

Ég hlakka til að halda áfram og taka þátt í umræðunni í dag og jafnvel reifa málið eitthvað frekar.