146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum nú, og ekki í fyrsta sinn í þessum þingsal, um frumvarp til breytinga á lögum sem snúa að því að heimila öðrum en ríkinu smásölu á áfengi, frumvarp sem oft hefur gengið undir heitinu brennivín í búðir, enda segir það heiti í rauninni margt, ekki kannski allt, en margt sem segja þarf um inntak frumvarpsins.

Þetta er verulega umdeilt mál og hefur það endurspeglast bæði í umræðum í þingsal sem og í nefndastörfum þar sem það gerðist til að mynda að meiri hluti velferðarnefndar lagðist gegn málinu. Svo hefur það líka komið berlega fram í umsögnum um málið sem borist hafa á fyrri þingum. Mig minnir að í fyrra hafi umsagnirnar um málið verið 49. Það verða nú að teljast allmargar umsagnir um eitt þingmannamál. Þingmannamál fá yfirleitt ekki svo margar umsagnir. Flestar mæltu þessar umsagnir gegn því að frumvarpið yrði samþykkt.

Mig langar að nefna hér sem dæmi umsögn frá landlæknisembættinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á grundvelli bestu fáanlegra gagna og við skoðun á niðurstöðum rannsókna og ráðlegginga frá m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um aðgerðir í áfengismálum er takmarkað aðgengi að áfengi ein skilvirkasta leiðin til að sporna við aukinni áfengisneyslu og um leið að draga úr þeim skaða sem getur hlotist af áfengisneyslu.“

Síðar í umsögninni vekur landlæknisembættið athygli á því að embættinu hafi borist bréf frá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þar sem lýst er yfir áhyggjum af mögulegum afleiðingum þess ef einkasala ríkisins á áfengi verður aflögð.

Þetta er hluti af þeim gögnum sem þingmenn hafa í fórum sínum til að byggja á afstöðu sína til þessa máls.

Það kemur einnig fram í viðbótargögnum sem bárust frá landlækni að íslensk ungmenni á aldrinum 15–16 ára neyta hvað minnst áfengis miðað við önnur ungmenni í Evrópu og að Noregur, Svíþjóð og Finnland raði sér öll neðarlega yfir lönd þar sem drykkja ungmenna er lítil. Þar er áfengissala takmörkunum háð, en í Danmörku er unglingadrykkja hins vegar með því hæsta sem gerist í Evrópu. Þetta er líka hluti af þeim gögnum sem ég tel að við þingmenn verðum að taka tillit til í störfum okkar og umræðum um málið.

Í umsögn sem barst í fyrra frá umboðsmanni barna segir, með leyfi forseta:

„Umboðsmaður barna veltir fyrir sér hvaða hagsmuna sé verið að gæta með ofangreindu frumvarpi. Fjölmargar rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi auki neyslu í samfélaginu, en slíkt hefur verulegar neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir börn, fjölskyldur þeirra og samfélagið allt.“

Eins og áður hefur komið fram í umræðum í dag ber okkur þingmönnum að gæta sérstaklega að hag barna.

Það er til talsvert mikið af gögnum og umsögnum sem við þingmenn getum notað til þess að glöggva okkur á málinu strax við 1. umr. Til að allrar sanngirni sé gætt vil ég segja að það bárust auðvitað líka einhverjar umsagnir frá aðilum sem vildu að málið yrði samþykkt og mæltu með því, en sammerkt með þeim umsögnum var að það voru einmitt að miklu leyti til umsagnir frá aðilum í verslun, fólki sem tengdist samtökum verslunarinnar eða fólks í verslunargeiranum.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt að velta upp og ræða þegar við ræðum um þetta frumvarp er spurningin: Er áfengi venjuleg neysluvara og getum við rætt um það eins og hverja aðra neysluvöru? Sjálf tel ég svo ekki vera. Ég tel að áfengi sé ekki hægt að setja í flokk með venjulegum neysluvörum. Ég er þar sammála stjórn Félags lýðheilsufræðinga sem skilaði í fyrra inn umsögn þar sem einmitt er tekið fram að áfengi sé engin venjuleg neysluvara og að á það leggi stjórn Félags lýðheilsufræðinga áherslu.

Í þeirri umsögn segir einnig, með leyfi forseta:

„Benda má á það augljósa að frumvarpið fer gegn markmiðum lýðheilsustefnu og stefnu í áfengis- og vímuvörnum, en báðar þessar stefnur hafa verið samþykktar af stjórnvöldum. Einnig vekur stjórn Félags lýðheilsufræðinga athygli á því að með þessu frumvarpi er ekki verið að vinna í anda þess að fá heilsu inn í allar stefnur eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir sterklega með og er í anda lýðheilsusjónarmiða.“

Hér er eiginlega ekki hægt að láta hjá líða að gera smá pásu og segja að nú hefði auðvitað verið gott að hafa hæstv. heilbrigðisráðherra í salnum og kalla eftir áliti hans á frumvarpinu og á því hvernig það samræmist að öðru leyti þeirri stefnu sem hann vill marka í lýðheilsustefnu. Ég ætla bara að vona að áður en 1. umr. um málið klárast taki hæstv. heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé til máls og við fáum að heyra afstöðu hans til málsins, því að ég held að það geti skipt máli fyrir okkur þingmenn, og ég held að það geti líka skipt máli inn í umræðuna í samfélaginu almennt.

Áður en ég fór í þennan útúrdúr varðandi hæstv. heilbrigðisráðherra var ég að ræða hvort áfengi væri venjuleg neysluvara og var búin að segja að svo teldi ég sjálf ekki vera. Það vakti athygli mína að í greinargerð með frumvarpinu er nú, líkt og reyndar var einnig á síðasta þingi, margoft talað um áfengi og það lagt að jöfnu við aðra neysluvöru. Þannig segir t.d. í millifyrirsögn á bls. 8 í greinargerðinni með frumvarpinu: „Kostir þess að selja áfengi með annarri neysluvöru.“

Á bls. 9 er hreinlega tekið fram og sagt, með leyfi forseta:

„Áfengi er almenn og lögleg neysluvara eins og t.d. tóbak og skotfæri.“

Þetta eru vissulega löglegar vörur, í það minnsta í ákveðnu samhengi, en ég tel að ekkert af þessu sé almenn neysluvara.

Þegar frumvarpið og greinargerðin eru öll lesin og skoðuð í samhengi fæ ég það samt á tilfinninguna að flutningsmenn frumvarpsins séu ekki alveg vissir um hvort þetta sé svona í raun og veru, því að í upphafi greinargerðarinnar á bls. 5 sagði, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu eru lagðar til eins litlar breytingar á lagaumhverfi áfengis- og tóbakssölu og mögulegt er miðað við það markmið að smásala áfengis verði frjáls að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.“

Ég sé ekki betur en flutningsmenn séu alla vega á því að það þurfi að vera einhver ákveðin skilyrði sem séu uppfyllt þannig að málið hlýtur að lúta einhverjum sérstökum lögmálum. Þess vegna finnst mér skrýtið að tala annars vegar um þetta í hálfkæringi sem almenna neysluvöru, en hins vegar að viðurkenna að ákveðin skilyrði þurfi að vera uppfyllt.

Hæstv. forseti. Ég hef nú farið yfir málið og tel öll rök hníga í þá átt að ekki eigi að gera smásölu á áfengi frjálsa heldur finnast mér einmitt góð og mikil rök fyrir því að hún verði áfram á vegum ríkisins og að ríkið hafi þar með greiða leið til þess að halda utan um málið og stýra aðgenginu. Ég var þess vegna verulega hugsi eftir ræðu hv. þm. Páls Magnússonar hér fyrr í dag, sem mér fannst reyndar um margt góð. Hv. þingmaður velti þar upp ýmsu mikilvægu og lýsti þeirri afstöðu sinni að hann gæti ekki samþykkt frumvarpið í þeirri mynd sem það er hér lagt fram en sagði að kannski myndi það batna í meðförum þingsins.

Ég velti því fyrir mér hvort það sé einmitt það sem nú vaki fyrir hv. flutningsmönnum, því að við sem höfum áður fjallað um málið sjáum að í frumvarpinu er gengið lengra í sumum efnum. Lagðar eru til meiri breytingar en gert hefur verið í frumvörpum liðinna ára, svo sem það að heimilt verði að auglýsa áfengi en þó með ákveðnum takmörkunum. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé kannski taktík — mér er alltaf jafn illa við að nota hernaðarleg hugtök, en stundum detta mér bara engin önnur orð í hug — þ.e. að setja víglínuna framar, og geta svo í meðförum nefndarinnar komið með breytingartillögur til þess að draga úr og til að mynda að gefa eftir heimildina til þess að leyft verði að auglýsa áfengi. Engu að síður á að afnema smásöluleyfi ríkisins og þar með er áfengi komið inn á smásölumarkaðinn. Ég held að þaðan verði svo auðveldara að taka stærri skref sem lúta að því að rýmka (Forseti hringir.) þann tíma sólarhringsins sem leyfilegt er að selja áfengi og auka þannig enn frekar á (Forseti hringir.) aðgengi að áfengi. Ég held að það sé nokkuð sem við þingmenn verðum algjörlega að vera með á tæru (Forseti hringir.) í bæði umfjöllunum okkar hér í þingsal og í nefnd.