146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:05]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka það fram að það er eitt ríkisfyrirtæki sem er mér kært, það er ÁTVR. Ég er sjálfur í prinsippinu alveg sammála þessu frumvarpi. Ég skil lýðheilsurökin gegn því. Ég skil þau.

Nú voru þessi sömu lýðheilsurök notuð þegar bjórinn átti að koma til Íslands. Lýðheilsufræðingar og allur þessi hópur sagði þegar bjórinn átti að koma að hér mundi allt fara til andskotans. Reynslan varð allt önnur. Það er staðreynd að drykkja ungs fólks hefur dregist saman þrátt fyrir margfalt, tugfalt, meira framboð. Ég velti því fyrir mér: Hvernig gengur það upp? Kanna þessar kannanir ekki íslenskan veruleika? Eða berst fólkið, sem gerir svona kannanir, gegn öllu svona? Ég veit það ekki. En þessar (Forseti hringir.) staðreyndir blasa við mér. Ég spyr: Hvaða skýringu hefur þingmaðurinn á því?