146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:08]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta fyrirtæki er mér bara kært vegna þess að við höfum átt svo lengi samleið. [Hlátur í þingsal.] En það er þá ekki sjálfgefið að aukið aðgengi per se þýði meiri drykkju. Það er þá væntanlega niðurstaðan. Þetta er þá spurning um sérverslanir eða almennar verslanir.

Ég skil alveg fólk sem er búið að glíma við fíknina að vilja ekki þurfa að hafa þetta fyrir augunum þegar það kaupir í matinn. Ég skil það. Ég trúi því hins vegar sjálfur að því meiri ábyrgð menn axla sjálfir á lífi sínu því betra verði það til lengri tíma. En ég skil þetta alveg. Þó að ég sé í prinsippinu fylgjandi þessu frumvarpi er ég ekki sérstaklega áhugasamur að fara gegn því ef meiri hluti þjóðarinnar vill hafa fyrirkomulagið óbreytt. Það er ekki það mikið kappsmál hjá mér eftir að ÁTVR fór að bæta þjónustuna svona mikið.