146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:15]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara byrja á að þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Þær hafa verið nokkuð málefnalegar og ég vona að svo verði áfram. Það er líka mikilvægt að málin fái hér góða umræðu. Henni ber að fagna. Ég vonast til þess að staðreyndir málsins fái þá að njóta sín. Ég ætla að reyna að koma að nokkrum atriðum án þess að fara í gegnum allt frumvarpið og lengja umræðuna um of.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að fara yfir. Ég bendi á að þetta frumvarp hefur oft komið fram áður og fengið mjög mikla umræðu. Það frumvarp sem liggur frammi núna ber þess merki. Það er búið að fara yfir þessa miklu umræðu og málið hefur þróast. Það hefur aldrei komið eins fram áður. Það eru alltaf einhverjar breytingar og ég tel að breytingarnar sem nú eru orðnar séu til þess að koma til móts við flestar þær áhyggjur sem hafa verið helstar í lýðheilsumálum.

Ég get alveg sagt strax að ég hef aldrei verið til í að ganga það langt að gera þær breytingar á frumvarpinu að þetta séu eingöngu sérvöruverslanir. Þá erum við nefnilega bara að tala um höfuðborgarsvæðið. Ég get sagt að ef þetta snerist um höfuðborgarsvæðið eitt væri ekkert mál að gera þetta þannig. Við þurfum að tala um hvernig þetta gagnist sem flestum í fjölbreyttu tilliti, bæði rekstrarlegu tilliti í verslunum almennt, ekki bara varðandi áfengi, og hvernig íbúar þessa lands njóta jafnræðis í veittri þjónustu. Það eru bara svoleiðis annmarkar varðandi að ekki yrði rekstrargrundvöllur fyrir sérvöruverslanir á litlum stöðum og annað slíkt og eins og ríkið hagar sér í dag skekkir það samkeppnisstöðu margra verslana víða um landið með staðsetningu sinni á áfengisverslunum. Það er ekki gott.

Það er ástæðan fyrir þessu. En þá ætla ég að koma inn á þá mikilvægu breytingu sem varð í þessu frumvarpi um að gert sé ráð fyrir búð í búð, algjörlega eins og ÁTVR rekur sína starfsemi og hefur gert til margra ára. Það finnst mér mjög stórt skref til að koma til móts við þær áhyggjur sem voru af því að hafa þetta inni í matvörubúðum.

Ég tek líka fram að það er ekkert markmið með þessu frumvarpi að þetta sé inni í matvörubúðum. Þetta mega vera sérvöruverslanir, þetta má þess vegna vera í gjafavöruverslunum ef því er að skipta, en þá afmarkað, búð í búð, nema sveitarstjórn gefi leyfi um annað að uppfylltum vissum skilyrðum. Þetta er mjög mikilvægt. Við skulum þá ræða allar þær rannsóknir sem eru mátaðar upp á þetta frumvarp og þær afleiðingar sem verði af samþykkt þess miðað við hvernig frumvarpið er úr garði gert, með þessar staðreyndir í huga.

Ég get alveg tekið undir að aukið aðgengi auki neyslu. Það eru til rannsóknir um það. Ég ætla ekkert að andmæla þeim og hef aldrei gert. Hins vegar hef ég sagt: Ég hef aldrei séð hvernig aðgengisbreytingin í þessu frumvarpi passi við þá aðgengisaukningu sem talað er um í rannsóknum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að lágt verð á áfengi hafi 100% meiri áhrif en fjöldi útsölustaða. Við erum ekki að breyta neinu varðandi miklar álögur í gegnum áfengisgjöldin. Þær munu áfram renna í ríkissjóð og ríkisvaldið mun enn þá stýra þeim álögum. Fjöldi útsölustaða er vissulega faktor og þeim gæti fjölgað með samþykkt frumvarpsins. Þeir yrðu ekkert endilega sýnilegri ef þetta er í afmörkuðu rými inni í einhverju öðru húsnæði, ekki með stórum gluggum eins og vínbúðin er með á öllum stofnæðum höfuðborgarsvæðisins.

Heimalager er aðgengi. Fólk hamstrar af því að það býr langt frá versluninni eða býr við takmarkaðan afgreiðslutíma. Það er visst aðgengi. Ég drekk ekki áfengi sjálfur en margir Íslendingar sem njóta þess hafa hamstrað áfengi til að svara því fyrirkomulagi sem ríkið býður þeim upp á í sölu.

Skuggasala eykst varla með tilkomu frumvarpsins. Ég á erfitt með að trúa því. Það er visst aðgengi, sérstaklega fyrir ungt fólk.

Aldurstakmark er aðgengisfaktor. Við erum ekki að lækka áfengiskaupaaldurinn í þessu frumvarpi.

Afgreiðslutími er líka aðgengisfaktor. Hann er vissulega lengdur um nokkra klukkutíma en vínbúðin hefur verið að lengja hann. Það er eitt af því sem við getum rætt í meðförum málsins, hvort þetta sé það áhrifaríkur þáttur að við þurfum að bakka aftur til klukkan átta, frá miðnætti til átta, eins og vínbúðirnar hafa þetta í flestum sínum verslunum í dag nema úti á landi. Landsbyggðarfólkinu er að vísu bara skaffaður klukkutími en höfuðborgarbúarnir eru nógu góðir til að fá að hafa opið til klukkan átta.

Við skulum ræða þetta út frá þessum forsendum. Þarna er ég búinn að fara yfir það að aðgengið er ekki stóri þátturinn í þessu. Ég er talsmaður frjálslyndis og frelsis og væri tilbúinn að leggja fram algjörlega frjálsa sölu á áfengi en ég er talsmaður frelsis með ábyrgð og þess vegna höfum við þetta eftir skýrum skilyrðum og samkvæmt leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar sem segir að verðið sé mesti áhrifaþátturinn í aðgenginu og að ríkið sé ekkert mjög gott í að hafa eftirlit með sjálfu sér, þess vegna sé bara ágætt að einkaaðilar selji vöruna undir ströngum reglum frá ríkinu. Þá er hægt að bregðast við og hafa öflugra eftirlit með einkaaðilunum. Og líka, segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, passa einkaaðilarnir sig jafnvel betur en ríkið þar sem þeir eru að verja sitt vörumerki. Þess vegna munu þeir fara mjög varlega við sölu á þessari vöru.

Svo segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin líka að það sé mikilvægast að hjálpa þeim sem veikastir eru, gera einhverjar ráðstafanir til þess, og barnanna vegna. Þess vegna er lagt til að fimmfalda framlög í lýðheilsusjóð. Af hverju á fyrstu tvö árin að leggja sérstaka áherslu á áfengisvarnir? Jú, það er út af því að þegar lýðheilsusjóður var stofnaður var hann ætlaður eingöngu til að vera forvarnir varðandi áfengisvarnir, áfengisneyslu. En fljótt var búið að beina allri lýðheilsustarfsemi ríkisins inn í sjóðinn. Það var heldur betur búið að þynna út það sem átti að fara í forvarnir gagnvart áfengi. Þess vegna vildum við tryggja að það gerðist ekki aftur og leggja áherslu á að fyrstu tvö árin yrði alveg að lágmarki lögð áhersla á þetta. Framlagið er hins vegar varanlegt. Aukið framlag um 5% er ekki bara til tveggja ára heldur varanlegt. Það var ákveðið að hafa tvö ár til þess að sjóðnum væru ekki settar of miklar skorður til of langs tíma vegna þróunarinnar eins og hún hefur verið.

Ég held að við séum að fara eftir leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að einkaaðilar selji áfengið undir skýru eftirliti ríkisins og með skýrum ramma. Það er skýr rammi um hvernig þetta sé selt. Ríkisvaldið mun stýra því. Ríkisvaldið mun líka stýra álögunum í gegnum áfengisgjaldið. Ég hef miklu meiri áhyggjur af lýðheilsumálunum varðandi aukinn kaupmátt hjá þjóðinni. Aukinn kaupmáttur eykur neysluna mest. Hver ætlar að fara að berjast gegn auknum kaupmætti? Þá deyja fleiri þúsund manns og fæðandi konur auka áfengisneyslu og ég veit ekki hverju hefur verið haldið fram úr þessum ræðustól. Ætlið þið að stoppa kaupmáttinn? Ég spyr.

Við skulum máta rannsóknirnar sem við vitnum í við þetta frumvarp, það aðgengi sem er hér. Ég bið um það eitt. Ég tel að við höfum hlustað á þessi varnaðarorð. Við erum búin að draga til baka úr frumvarpinu að leyfa þessu að vera innan um aðra vöru og gerum skilyrði um það þannig. Öll skilyrðin eru þannig.

Svo langar mig að koma að einu í lokin. Berum þetta rétt saman við rannsóknirnar og hugsum líka um landsbyggðina. Ekki hugsa bara um höfuðborgarsvæðið, ekki hugsa bara út frá því að við séum að fara að selja áfengi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ekki svo einfalt.

Það er alltaf verið að tala um hagnaðinn af ÁTVR. Hann mun heldur betur skila sér áfram til ríkissjóðs eftir á af því að hann er allur borinn uppi af tóbakssölunni. Þessu hef ég oft haldið fram án þess að það sé hrakið af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Hún hefur aldrei mótmælt þessu. Hún hefur vissulega svarað mér þannig að bókhaldið sé ekki aðgreint, þess vegna sé ekki hægt að svara þessu nákvæmlega. En vissulega eru mun fleiri handtök við að selja áfengið en tóbakið og meðaltalsálagning er mun hærri á tóbak en áfengi. Undir rós er samþykkt sú fullyrðing að vínbúðin rétt standi undir sér eða sé kannski smá í tapi. Það gefur augaleið að þessi mikla yfirbygging er þar en tóbakshlutinn er ekki með neina yfirbyggingu.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en vonast eftir málefnalegum umræðum og að fólk ræði um frumvarpið eins og það er, ekki eins og það heldur að það liggi fyrir.