146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:34]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir hans ræðu. Þó að lýðheilsusjónarmiðin séu það sem mér finnst skipta öllu eða langmestu máli í þessari lagagerð, og marki að stærstu leyti andstöðu mína við frumvarpið, langar mig aðeins að ræða hér það sem honum varð tíðrætt um í ræðu sinni, þ.e. þjónustuna við íbúa víða um landið og aðgengi þeirra að áfengi.

Kjördæmavika er nýafstaðin hjá okkur hv. þingmönnum. Við höfum líklega öll farið víða um og hitt fjölda fólks. Ég er þingmaður fyrir töluvert dreift kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Töluvert mikil andstaða var við frumvarpið þar sem það bar á góma í hinum dreifðu byggðum, sem sneri m.a. að lýðheilsusjónarmiðum. Fólk spurði einnig hvernig í ósköpunum kaupmaðurinn á Patreksfirði, nefnum hann sem dæmi, ætti að fara að því að veita sama vöruúrval og Bónus eða Krónan hér í Reykjavík. Áhyggjurnar snúa líka að því þótt lýðheilsusjónarmið séu ofan á. Fólk spurði hvort kaupmaðurinn á Patreksfirði þyrfti að fara í Krónuna eða Bónus og kaupa tvær ódýrustu tegundirnar sem eru í boði þar og leggja síðan þrefalt verð ofan á það. Hver er réttur fólks á þessu svæði? Á það bara að kaupa svínsmerktu ölflöskuna úr Bónusbúðinni á þreföldu verði í lítilli kaupmannsbúð vestur á fjörðum?