146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:37]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að hv. þingmaður hefur hag af því að snúa út úr umræðunni. Það sem ég sagði við hann hér áðan, ef hann hefði hlustað, er að ég hef mestar áhyggjur af lýðheilsusjónarmiðum. Hitt spilar örlítið inn í. Kannski gleymdi ég því orði. Hann talar um skerta heilbrigðisþjónustu. Þá vil ég bara skora á hann sem stjórnarþingmann hér á hinu háa Alþingi að beita sér fyrir auknum fjármunum til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Því miður hafa þær ekki setið við sama borð og hér í þéttbýlinu við úthlutun á fjármagni.

Mig langar líka, þar sem hann talar um heilbrigðissjónarmið, að spyrja hvað honum finnist um orð landlæknis sem hefur varað stórlega við samþykkt þessa frumvarps. Tekur hann þau varnaðarorð sem landlæknir leggur fram trúanlega eða ekki?