146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:38]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ræða þessa þætti. Ég vil líka taka fram að ef við tækjum aldrei umdeildar ákvarðanir hér á Alþingi, þótt ekki sé 100% sátt um þær, yrði þróunin ekki mikil í samfélaginu. Ef enginn þyrði að taka slíkar ákvarðanir. Ég vil líka benda á varðandi landsbyggðina að hún myndi búa við netverslun, sem hún nýtir sér mun meira í þessum efnum nú þegar. En ég og hv. fyrirspyrjandi Elsa Lára Arnardóttir erum algerlega sammála um að við þurfum að beita okkur fyrir því að heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni sitji við sama borð og í höfuðborginni. Ég hef alveg sömu skoðun þar og í þessu. Hér sé ég til dæmis tækifæri til að losa 5 milljarða sem mér væri mjög annt um að færu í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, þegar við seljum ÁTVR og losum þá 5 milljarða sem bundnir eru þar. Fjármálaráðuneytið hefur þá kannski tíma til að hugsa um heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni, ekki um að vera starfsmannastjóri ÁTVR.

Landlæknir — ég var meðal annars að vísa í orð hans þegar ég bað fólk um að tjá sig (Forseti hringir.) um frumvarpið eins og það er, ekki eins og það heldur að það sé. Það átti líka við um landlækni.