146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er viss ánægja að eiga hér orðastað við hv. þingmann sem hefur tvívegis fóstrað þetta mál sem fyrsti flutningsmaður og er nú einn af flutningsmönnum í þriðja sinn. Fáir þekkja væntanlega innviði þessa máls betur en hv. þm. Vilhjálmur Árnason.

Hann ræddi nokkuð hinar dreifðu byggðir og hvernig frumvarpið gæti komið við þær. Ég deili þeim áhyggjum almennt með honum og að gera þurfi meira til að jafna búsetuskilyrði um landið svo fólk geti raunverulega valið hvar það setur sig niður. Mér þykir það hafa gildi í sjálfu sér. Auðvitað munar þar mest um bráðlífsnauðsynlega þjónustu eins og heilsugæslu eða menntastofnanir eða hvað það er. En aðgengi að neysluvörum er skert víða um land. Það er samþjöppun á matvælamarkaði, það er fákeppni. Litlar verslanir í litlum bæjarfélögum berjast í bökkum. Ég á erfitt með að sjá hvernig það myndi breytast varðandi þessa tilteknu vöru, áfengi, ef henni yrði hleypt út á hinn sama óhefta samþjöppunarmarkað og almennri matvöru. Það er oft talað um að ÁTVR hafi stóraukið aðgengi með því að fjölga útsölustöðum. Stærsti hluti þeirrar fjölgunar er einmitt í hinum dreifðu byggðum, í örsmáum sveitarfélögum þar sem mér er til efs að markaðslögmálin segðu að væri praktískt að setja upp verslun.

Telur hv. þingmaður að fólk á stöðum (Forseti hringir.) eins og Kópaskeri eða Þórshöfn hefði aðgang að sömu vöru og fólk annars staðar á landinu gegn sama gjaldi eins og er í dag?