146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:42]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þetta. Gaman að heyra hversu sammála við erum og að hann hafi áhyggjur af sömu þáttum og ég.

Já, ég tel að íbúarnir þar hefðu sama aðgengið, meira að segja betra. Í dag býður ÁTVR þeim sem búa í vissri fjarlægð frá næstu áfengisútsölu fría heimsendingu á áfengi í gegnum netverslun. Það munu verða til netverslanir nái þetta frumvarp fram að ganga þannig að íbúar munu búa að því. Einnig er ekki sett upp áfengisverslun á litlum stöðum eins og Kópaskeri nema í vissri fjarlægð frá næsta stað. Það er út af fjarlægðinni sem íbúar þar hafa fengið áfengisverslun. Á stöðum eins og Kópaskeri er mjög erfitt að reka venjulega dagvöruverslun. Ef sú dagvöruverslun fengi meiri veltu gegnum áfengissöluna þannig að ekki þyrfti að hafa tvöfalt kassakerfi og tvöfalt fleira starfsfólk því að áfengisverslunin er inni í dagvöruversluninni, þá mun rekstrargrundvöllur fyrir almenna neysluvöru aðra en áfengi styrkjast því að það fæst meiri velta í verslunina.

Ég hef heyrt nýlega fréttir úr mínu kjördæmi um að verið sé að loka litlum verslunum þrátt fyrir fjölda ferðamanna því að þær standi ekki undir sér. Ef þær geta fengið að selja löglega neysluvöru sem skapar töluverða veltu, eftir ströngum skilyrðum, mun það auka líkurnar á að hægt sé að bjóða íbúunum almennt vöruúrval fyrir utan áfengi. Ég tel að það sé mjög mikill ávinningur fyrir landsbyggðina í því.