146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:45]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég byrji á síðustu spurningunni þá held ég að það þyrfti ekki að þenja það mikið út þar sem nú þegar er eftirlit með verslunarstarfsemi, heilbrigðiseftirlit og annað, þegar sótt er um leyfi fyrir verslunarstarfsemi, það er eftirlit hvort sem er nema hvað að þarna mun heilbrigðiseftirlitið fá aukna fjármuni sem eru fólgnir í leyfinu til þess að fá útgefið. Við getum kannski jafnvel gert það að kröfu að borga þurfi fyrir leyfið oftar til þess að standa frekar undir eftirlitinu. En það er vissulega aukaleyfisgjald fyrir utan það leyfi sem við erum með nú þegar fyrir verslunarstarfsemi. Svo mun almenningur og aðrir stunda miklu meira eftirlit með einkaaðilunum en þeir gera með Vínbúðunum því þeir treysta bara Vínbúðunum sem ríkisfyrirtæki þannig að ég held að hið almenna eftirlit fáum við pro bono.

En það er einmitt póstþjónustan og netverslunin. Ég held að netverslun, ekki bara netverslun með áfengi heldur bara almennt, sé einmitt eitthvað sem geti bjargað póstþjónustu og aukið þjónustu við landsbyggðina og aukið póstsamgöngur, hvort sem það er í gegnum Póstinn eða einkafyrirtæki.