146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:54]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki verið minni maður en hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson og kýs að fara hér með eitt vísukorn, með leyfi forseta. Það er eftir skagfirska hagyrðinginn Harald Hjálmarsson.

Brennivín er besti matur,

bragðið góða svíkur eigi.

Eins og hundur fell ég flatur

fyrir því á hverjum degi.

Í síðustu viku, í svokallaðri kjördæmaviku, hitti ég forsvarsmenn allra framhaldsskóla í Norðausturkjördæmi. Flestir eða allir minntust á þetta frumvarp að fyrra bragði og mæltu einum rómi gegn því. Þeir töldu að þetta myndi auka drykkju ungs fólks enn á ný með slæmum afleiðingum. Ég geri ráð fyrir að forsvarsmenn annarra framhaldsskóla hér á landi séu á sama máli. Því spyr ég hv. þingmann hvernig hann hyggist sefa áhyggjur þessa fólks.