146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:55]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og góðvini mínum, Einari Brynjólfssyni, fyrir fyrirspurnina. Ég hef fullan skilning á því að forsvarsfólk framhaldsskóla og aðrir aðilar sem hafa atvinnu og reynslu af því að huga hvað helst að lýðheilsu beiti sér fyrir því að ungt fólk og fólk almennt neyti síður áfengis og verði sér síður að skaða með þeim hætti. Ég vil að þau geri það. Ég vil að þau haldi áfram að gera það. En ég tel það ekki vera hlutverk okkar sem þingmanna og stjórnvalda að beita okkar valdboði til að stuðla að því. Ég vil frekar að framhaldsskólarnir hjálpi nemendum sínum með upplýsingum og forvörnum til að taka réttar ákvarðanir fyrir sig sjálf.

Ég minni á að samkvæmt frumvarpinu verður aldurstakmarkið áfram 20 ár og frá því að bjórbannið var afnumið, eins og ég minntist á hér áðan, hefur áfengisneysla á Íslandi aukist mjög verulega á sama tíma og unglingadrykkja hefur dregist mjög mikið saman. Að sjálfsögðu hef ég samúð með þessum sjónarmiðum en tel það ekki vera hlutverk okkar að stýra neyslu fólks. Áfram yrði ólöglegt fyrir fólk undir 20 ára aldri að kaupa áfengi. Mér finnst ekki eðlileg stefnumótun að banna eitt af því að það gæti mögulega haft í för með sér að annað, sem er nú þegar bannað, verði frekar gert. Skiljiði? Að banna öllum að kaupa áfengi af öðrum en ríkinu vegna þess að ungt fólk, sem hvort eð er má ekki samkvæmt lögum kaupa áfengi, gæti keypt áfengi — reynsla Íslendinga er ekki sú að aukið aðgengi að áfengi hafi þau áhrif að unglingadrykkja aukist verulega. En út af þeim áhyggjum leggjum við til aukin framlög til forvarnastarfs.