146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:00]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann ræddi aðeins um hækkun á hlutfalli áfengisgjalds sem renna á í lýðheilsusjóð til forvarna. Mig langar til að spyrja hann út í það og það tveggja ára viðmið sem sett er í frumvarpinu. Telur hann það nægjanlegt? Nú höfum við meðal annars séð gríðarlega aukningu í tölum t.d. þegar kemur að ölvunarakstri. Það sjáum við í fréttum. Til dæmis var mikill fréttaflutningur í desember af gríðarlegri fjölgun þeirra sem teknir voru fyrir ölvunarakstur. Sambærilegar tölur hafa ekki sést frá því 2007 eða 2008. Það er gríðarleg aukning frá undanförnum árum. Það kom jafnframt fram í fréttum að ein mikilvægasta aðgerðin sem hægt væri að fara í til þess að sporna gegn því væri að auka verulega framlög í forvarnasjóði. Því spyr ég, vegna þeirrar miklu aukningar sem orðið hefur: Munu þessi tvö ár duga? Af hverju þarf það að vera bundið við frumvarpið að við hækkum framlög í þennan sjóð? Myndi hv. þingmaður myndi samþykkja frumvarp, þótt þetta frumvarp yrði fellt, sem fæli í sér hækkun á þessu, frumvarp sem stæði eitt og sér án tillits til þess hvort þetta frumvarp verður að lögum eða ekki?