146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:04]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir fyrir andsvarið, hv. þingmaður. Hv. þingmanni er tíðrætt um að við eigum ekki að hafa vit fyrir fólki og ekki að setja því skorður um aðgang að ákveðnum hlutum, eins og t.d. þessum, en starf okkar þingmanna byggist mjög mikið á samráði við fagfólk, fólk sem hefur þekkingu, sendir inn umsagnir.

Þingleg meðferð mála. Efnisleg vinnsla mála á sér stað í nefndum þar sem við fáum upplýsingar um hluti sem við vissum kannski ekki áður og geta mótað afstöðu okkar og hafa þannig áhrif á regluverk. Auðvitað hefur það ákveðin áhrif og við verðum líka að hlusta á þær skoðanir sem hafa áhrif á lagasetningu. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðað umsagnir um málið frá fyrri þingum þegar málið hefur verið tekið saman, og skoðað hvernig þær skiptast í tvo hópa þar sem fagfólk í heilbrigðisvísindum og félagsvísindum annars vegar varar við samþykkt þessa máls, á meðan aðilar verslunar og þjónustu hins vegar eru mjög hlynntir því. Hefur hann velt því fyrir sér hvað valdi mismunandi umsögnum hjá þessum tveimur ólíku hópum?