146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:05]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef kynnt mér þessar umsagnir og þær rannsóknir sem þær byggja á. Það kemur mér alls ekki á óvart að landlæknir eða fagstéttir í félags- og heilbrigðisstétt séu á móti þessu frumvarpi og telji að það munu auka áfengisneyslu og jafnvel neikvæðar afleiðingar af henni. Ég lít svo á að það sé hlutverk þeirra, og ég treysti mati þeirra á líffræðilegum áhrifum áfengisneyslu og alls konar empírík sem því tengist, en svo er það okkar stjórnmálamanna að ákveða hvernig þingið og stjórnvöld eiga að bregðast við því. Það fer eftir gildismati okkar á því hvert hlutverk stjórnvalda sé og hvaða rétt við höfum í því samhengi. Ég vil áfram styðja við forvarnastarfsemi og meðferðarúrræði eins og SÁÁ, sem ég geri. En ég vil ekki að við sem þingmenn beitum því valdi sem við höfum, valdbeitingaráhrifum, til að ráðskast með (Forseti hringir.) hvernig fólk stýrir neyslu sinni.