146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:06]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að leggja aðeins út af orðum hv. þingmanns um það hvað sé siðferðilega rétt að nota ríkisvaldið í. Það er almenn skoðun fagfólks í heilbrigðiskerfinu að aukið aðgengi áfengis stuðli að aukinni neyslu þess. Það þýðir aukið álag á heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstarfsfólk sem þýðir síðan aukin útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins. Að auki vilja flutningsmenn frumvarpsins bæta við útgjöld ríkissjóðs til sérstaks forvarnasjóðs. Er það ekki mótsögn þegar hv. þingmaður talar um hvað sé siðferðilega rétt að nota ríkisvaldið í að hann mæli samt sem áður með því að samþykkja frumvarp sem hefur í raun og veru í för með sér aukið álag á heilbrigðiskerfið og um leið aukna fjármuni úr ríkissjóði okkar allra og þvingar ríkið til þess að taka á sig fjárhagslegar byrðar til þess að mæta þessu, eiginlega undir því yfirskini að ríkið sé ekki hæft til að selja áfengi en því beri samt sem áður að taka á sig allan þann kostnað sem hlýst af því heilbrigðisvandamáli sem aukið aðgengi að áfengi þýðir? Ég vildi aðeins fá nánari útskýringar og spyrja hv. þingmann hvort þetta sé ekki alger þversögn og mótsögn í sjálfu sér.