146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:08]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ótrúlegt en satt þá finnst mér ekki vera alger þversögn og mótsögn í afstöðu minni. Í fyrsta lagi er ekki kveðið á um aukin útgjöld ríkissjóðs í gegnum áfengisgjaldið heldur að aukið hlutfall þess fari til meðferðarmála og lýðheilsumála. Í öðru lagi er hitt heimspekileg umræða, um kostnaðinn fyrir heilbrigðiskerfið, sem mér finnst verðug umræða. Ég er fylgjandi opinberu heilbrigðiskerfi eins og ég fór yfir áðan á þeim forsendum að það sé siðferðileg skylda okkar að hjálpa fólki sem þarf á hjálp að halda, er veikt eða lendir í slysum o.s.frv. En ég tel að sú siðferðilega skylda byggi ekki á því að þar með höfum við rétt til að stýra fólki og hvernig það hegðar sér og hvort það fari sér að voða, alveg eins og ef vinur minn myndi lenda í bílslysi myndi ég verja tíma og orku í að koma honum til hjálpar en það gefur mér ekki rétt til að banna honum að keyra bíl. Þetta byggir ekki á því að með því að við höfum opinbert heilbrigðiskerfi höfum við þar með eignast alla sem gætu þurft á þeirri þjónustu að halda. Eða eru það rökin fyrir því að vera fylgjandi heilbrigðiskerfinu? Er það nauðsynleg afleiðing af því, að mati hv. þingmanns, að vera fylgjandi opinberu velferðarkerfi að maður sé það á þeim forsendum að geta haft stjórn yfir einkalífi fólks?