146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst bara nokkuð merkileg þessi krafa um að ríkið taki á sig auknar fjárhagslegar skuldbindingar en samt undir því yfirskini að ríkinu sé ekki treystandi til að selja áfengi. Þetta er í sjálfu sér mótsögnin sem ég var að tala um áðan.

Og fyrst við erum að tala hér eingöngu um þann þátt er lýtur að kostnaði ríkisins þá er ekki ljóst nákvæmlega hver kostnaður ríkisins er við frumvarpið. Hér erum við að tala um eftirlit og að þeir sem selja áfengi í verslunum eigi að vera 18 ára eða eldri. Það er ekki ljóst hver á að sinna því eftirliti og hvað það muni kosta þannig að það er enn einn kostnaðarliðurinn og enn ein byrðin sem verið er að velta yfir á ríkið sem er, nota bene, samkvæmt þingmanninum ekki treystandi til að selja áfengi en á svo sannarlega að taka á sig allar þær fjárhagslegu skuldbindingar sem eru afleiðingar frumvarpsins.