146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:28]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Proppé fyrir að veita mér tækifæri til að útskýra það að ég var að lýsa því hvers vegna ég er fylgjandi því frumvarpi sem lagt er fram. Það gengur að mínu mati klárlega í þá átt að veita fólki meira frelsi yfir eigin neyslu. Ég tel það eðlilegt og ég tel lýðheilsurökin ekki gilda nógu sterkt um það vegna þess að heilsa einstaklinga er þeirra mál. Ég er fylgjandi því að lögleiða heimabrugg. Ég er til í að ræða alls konar aðra hluti sem hann nefndi, skyldutryggingar, hraðatakmarkanir og þess háttar, en flest af því kemur miklu meira inn á sameiginlegar reglur um sameiginleg kerfi sem við höfum eins og vegakerfið, hvað við gerum á vegakerfinu sem er okkar sameiginlega kerfi. Það er að mínu mati eðlisólíkt því að hafa vit fyrir fólki um einkalíf þess.

En það er líka athyglisvert að hann spurði í lok ræðu sinnar: Hvers vegna er gengið hér alla leið? En samt var hann að segja að ég væri ósamkvæmur sjálfum mér vegna þess að ekki væri gengið alla leið, vegna þess að það eru takmarkanir um sérrými, um afgreiðslutíma, um ísbíla. Af hverju má maður ekki fá sér bjór með pylsunni? Ég myndi vilja að fólk gæti fengið sér bjór með pylsunni. Að sjálfsögðu gengur þetta ekki algerlega alla leið. Þetta er ákveðin málamiðlun. En ég er engu að síður fylgjandi þessu vegna þess að þetta er skref í rétta átt. Mér geta þótt ákveðnar takmarkanir skynsamlegar en það er allt annars eðlis það inngrip að setja reglur um viðskipti á markaði en að banna þær.

Að lokum vil ég spyrja því að hann sagði að það væri á ábyrgð okkar flutningsmanna að sanna að þetta hefði ekki slæm áhrif: Er það sem sagt þannig, að mati hv. þingmanns, að ríkið eigi aðeins að leyfa fólki að gera það sem hefur verið sannað að hafi ekki skaðleg áhrif? Eigum við þá að banna áfengi yfir höfuð? Það hefur ekki verið sannað að það hafi ekki skaðleg áhrif að neyta áfengis. Mér finnst þetta mjög skrýtin afstaða sem virðist liggja hér að baki þessari kröfu hv. þingmanns og velti fyrir mér hvað hann eigi við með því.