146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:32]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég útskýrði vel hér áðan lít ég ekki á kostnaðarrök sem mögulegan kjarna máls í þessari umræðu. Mér finnst að við eigum að hafa heilbrigðiskerfið þó svo að fólk geti stundum ákveðið að fara sér að voða og ég er tilbúinn að leggja kostnað í það, hvort sem hann yrði hugsanlega aðeins meiri eða ekki.

Þú vilt sem sagt bara að maður eigi að sanna að mál hafi ekki skaðleg áhrif þegar það er þetta mál? Ef það kæmu einhver önnur mál þyrftum við ekkert að sanna að þau hefðu ekki skaðleg áhrif? Þetta er svona svolítið (Gripið fram í.) skrýtið samræmi ... Ekki? Ókei.

En ég var að spyrja þig út í kröfuna sem þú gerðir á mig og þú gerir hana bara á þetta mál, ekki almennt.

(Forseti (UKB): Forseti vill minna þingmenn á að ávarpa aðra þingmenn ...)

— Já. Góð áminning. Takk fyrir það. Og varðandi vímuefni: Já, ég sagði: Þetta er vímuefni en þetta er líka neysluvara. Ég tel að það sé algert samræmi í því að fólk geti notað áfengi sem neysluvöru með mat o.s.frv. en einnig sem vímuefni.

Varðandi aldursmörkin — það er náttúrlega þannig að þegar ég tala um sjálfsákvörðunarrétt er ég að tala um sjálfráða einstaklinga, 18 ára. Ég myndi telja það mjög vel skoðandi, já, að lækka aldursmörkin í 18 ár. Þannig að ég tel mig vera samkvæman sjálfum mér í því. En mér finnst svolítið ódýrt, verð ég að segja, af hv. þingmanni að hengja sig á tilteknar röksemdir í greinargerð með frumvarpinu því að við höfum jú öll ólíkar ástæður til að vera með eða á móti ákveðnum frumvörpum. Ég er fylgjandi þessari tillögu. Það þýðir ekki að ég myndi nota nákvæmlega sömu rök og aðrir flutningsmenn þessarar tillögu um það. Þú segir að það séu einhver mörk á mínum sjónarmiðum. Að sjálfsögðu. Það eru einhver mörk á öllu. Ef ég tryði því að landið myndi leggjast í eyði við að þetta frumvarp væri samþykkt myndi ég hugsa mig tvisvar um. En ég tel það ekki vera tæk rök fyrir því að fólk megi ekki nota löglega neysluvöru og vímuefni að það gæti ákveðið að fara sér að voða með því. Það er vegna þessa grundvallarprinsipps; öll prinsipp eiga sér einhver takmörk en ég tel þessi takmörk klárlega vera of þröng.