146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:34]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég er að misskilja hv. þingmann, ég biðst forláts ef svo er. Hann talaði hér í lokin um að ekki séu rök fyrir því að fólk megi ekki nota löglega neysluvöru og vímuefni. Það er enginn að fjalla um bann á áfengi. Flutningsmenn hafa reyndar reynt að særa út frumvarp um bann á áfengi. Það er enginn að fjalla um það hvort neyta megi áfengis, hvort það megi kaupa áfengi einhvers staðar. Ég veit ekki hvort þingmaður er að misskilja þetta, eða ég, ég átta mig bara ekki alveg á því. Um þetta snýst málið ekki á nokkurn einasta máta. (VOV: Kom í ljós áðan.) — Já, ja, eins og ég segi, þá er það væntanlega ég sem er að misskilja.

Og hvað varðar greinargerð: Leiðrétti mig einhver hér sem hefur meiri þingreynslu ef það er rangt en er greinargerð ekki lögskýringargagn? Hefur ekki greinargerð vægi, og jafnvel meira vægi, því að oftar en ekki er greinargerðin töluvert nákvæm. Þar er kveðið á um nákvæmlega hvernig eitt frumvarp, sem er kannski ein setning, skuli útfærast. Mér finnst það pínulítið ódýrt að ætla að velja úr; sammála þessu, ósammála hinu, en ja, þetta sleppur til. Ég myndi ekki vinna þannig en hver þingmaður verður að vega það og meta og eiga það við sjálfan sig hvort hann styður það mál sem gæti þá í einhverjum tilfellum verið uppfullt af einhverjum ákvæðum sem þeir eru þá á móti.

Og kostnaðarmat með frumvarpi snýst ekki um hvort við ætlum að reka heilbrigðiskerfi eða ekki. Það snýst um það að þingmenn átti sig á því hvaða kostnað samþykkt frumvarpsins myndi hafa í för með sér. Er hann einhver? Hversu mikill er hann? Vilji þingmenn vera sérstaklega ábyrgir ættu þeir að koma með það á móti hvar eigi þá að afla tekna.