146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:37]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kolbeini … Óttarssyni Proppé, [Hlátur í þingsal.] maður er orðinn alveg ruglaður í þessu, fyrir ræðuna.

Hann ræðir hér um þetta tveggja ára töfratímabil, kemst mjög skemmtilega að orði, sem er mjög lýsandi fyrir þann stutta tíma sem þetta frumvarp kveður á um hækkun á hlutfalli af áfengisgjaldi sem eigi að renna í lýðheilsusjóð. Ég held að þetta sé mjög gott nafn á þetta tímabil, sérstaklega vegna þess að við sáum í fréttaflutningi rétt fyrir jólin að ölvunarakstur hefur aukist mjög mikið. Það kom fram samhliða þeim fréttaflutningi að það vantaði orðið fjármagn inn í lýðheilsusjóð til að bregðast við og fara í forvarnir til að vinna að þeim málum. Það er að sjálfsögðu mjög gott að þessi upphæð sé hækkuð fimmfalt. En er hann ekki sammála mér, og maður heyrir það auðvitað á ræðu hans, um að þetta sé allt of stutt tímabil? Þurfum við ekki bara að koma með sérlagasetningu um málið, um hækkun á þessu gjaldi, sem er algerlega óháð því frumvarpi sem um ræðir? Mig langar að vita hvort hann sé ekki hjartanlega sammála mér um að það sé einstaklega mikilvægt, þar sem eiginlega allir flutningsmenn þessarar tillögu hafa rætt að aðgengi að áfengi muni aukast í kjölfarið. Þá er maður hræddur við að sjá háar tölur, ef þetta töfratímabil verður alls ekkert töfratímabil, því að þetta er líklega of stuttur tími til þess að eitthvað verði gert í málunum.