146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:39]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sérstaklega gaman af því hvað nafn mitt stendur í mörgum. Ég hefði átt að gera það sem ég vildi helst koma yfir á son minn, að skipta um nafn og heita annað hvort Jochum Proppé eða Preben Proppé eins og ég hafði velt fyrir mér á unglingsárum, enda fá nöfn sem eru hljómfegurri en annað af þessum tveimur. Kannski ég biðji um atkvæðagreiðslu í salnum? Preben Proppé eða Jochum Proppé?

Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir andsvarið. Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður segir. Það sem mér finnst ámælisverðast af mörgu slíku í þessu er að hér er slengt fram algerlega rakalaust að þetta tímabil aukinnar neyslu, sem hv. flutningsmenn viðurkenna þó að verði til staðar, muni af einhverjum ástæðum aðeins vara í tvö ár. Þetta þykir mér býsna alvarlegt, því að þetta er kannski það sem deilurnar hafa snúist um, að láta eins og það gerist þá bara eitthvað að þessum tveimur árum liðnum þar sem allt á að jafna sig og geta svo ekki vísað í neinar rannsóknir, engar spár, engin fordæmi. Það veit enginn hvort þetta eru tvö ár eða tuttugu ár eða tveir mánuðir eða hvort þetta mun aldrei jafna sig. Það bara er eins og hv. flutningsmönnum komi það ekki við.

Ég verð að játa að mér finnst pínulítið holur hljómur í því að leggja svo miklar áherslur á forvarnir eins og margir hv. flutningsmenn hafa komið að hér í dag. Ég hef ekki séð að margir þeirra hafi t.d. talað mikið fyrir auknum forvörnum eða auknum framlögum til SÁÁ við fjárlagagerðina í desember, svo að eitthvað sé nefnt.