146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:41]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var áhugaverð umræða um nafngiftir í upphafi svars hv. þingmanns, en ekki orð um það meir.

Mig langar að koma aðeins að því sem var talað um í ræðunni og taka undir það sem hv. þingmaður sagði. Það er mjög mikilvægt að kostnaðargreina samfélagsleg áhrif þessa frumvarps, t.d. á heilbrigðiskerfið, varðandi aukinn stuðning við börn og barnafjölskyldur og ýmsa aðra tengda þætti. Í því samhengi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi farið yfir umsagnir frá fyrri þingum þegar umrætt mál var lagt fram og hvort hann hafi tekið eftir því og sé sammála mér um það að þær umsagnir skiptist í tvo hópa eftir því hvort þetta er fagfólk í heilbrigðis- eða félagsvísindum eða eigendur eða hagsmunaaðilar verslunar og þjónustu. Er hann sammála mér um að umsagnirnar skiptast í tvo hópa eftir því hverjir aðilarnir eru? Það kemur fram þegar maður skoðar umsagnir að fagfólkið í heilbrigðis- og félagsvísindum varar við samþykkt frumvarpsins á meðan hinn hópurinn mælir með samþykkt þess.

Ég hef einmitt verið að velta fyrir mér, þótt maður sjái það auðvitað, hagsmuna hverra sé verið að gæta með framlagningu þessa máls. Það væri fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður hafi skoðað þá þætti og myndað sér skoðun á þeim ólíku hópum sem um ræðir.